Séð yfir skáksalinn í Eyjum. Mynd: TV

Öflugt atskákmót Pallamótið – til minningar um Pál Árnason, múrara (1945-2021) fór fram í Vestmannaeyjum laugardaginn 5. júní sl. í húsnæði Þekkingarseturs Vm. Keppendur voru 50 og voru tefldar sjö umferðir og umhugsunartími á skák 10 mín. og 5 sek á leik. Mótið hófst kl. 12 á hádegi af lokinni formlegri setningu. Af þessum 50 keppendum voru fjórir stórmeistarar, tveir alþjóðlegir meistarar og einn FM meistari. Alls tóku 14 félagar í TV þátt í mótinu auk þriggja úr fjölskyldu Páls Árnasonar. Félagið stóð fyrir fjölmennu móti til minningar um Bedda á Glófaxa ( 1943-2018), Beddamótið í sama húsnæði á gamla lokadaginn 11. maí 2018 og bjó því að góðri og dýrmætri reynslu af jafn fjölmennu mótshaldi.

Sigurvegari á mótinu var Vignir Vatnar Stefánsson nýlega orðinn alþjóðlegur meistari með 6,5 vinninga af 7 mögulegum sem er glæsilegur árangur hjá þessum unga skákmeistara. Í öðru sæti varð Helgi Áss Grétarsson, stórmeistari með 6 vinninga og í 3.-5. sæti urðu stórmeistararnir: Helgi Ólafsson, Guðmundur Kjartansson og Hannes Hlífar Stefánsson með 5,5 vinninga. Síðan komu fjórir keppendur með 5 vinninga og í þeim hópi eru Þorsteinn Þorsteinsson FM meistari og Aron Ellert sonur hans en þeir eru báðir félagsmenn í TV og keppa fyrir félagið á Íslandsmóti skákfélaga. Veitt voru þrenn verðlaun til keppenda sem fæddir eru 2005 og síðar, en þeir voru Markús Orri Jóhannsson, Matthías Björgvin Kjartansson og Bjartur Þórisson en þeir hlutu allir 4 vinninga. Mótinu lauk upp úr kl. 16 og fóru margir keppendur með Herjólfi til Landeyjahafnar kl. 17 að loknu vel heppnuðu skákmóti.

Lokstaðan á Chess-Results

Helsti styrktaraðili mótsins var Ísfélag Vestmannaeyja og Langa fiskþurrkun. Aðrir helstu bakhjarlar Taflfélags Vm. eru Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin. Skákstjóri á þessu fjölmenna móti var Þórir Benediktsson frá Skáksambandi Íslands og mótstjórar voru Arnar Sigurmundsson og Hallgrímur Steinsson form. Taflfélags Vm. Nánar um mótið á skak.is.

- Auglýsing -