NM ungmenna í Færeyjum lauk í kvöld. Íslenski hópurinn uppskar 30,5 vinning af 57 mögulegum. Tvenn verðlaun féllu í skaut Íslendinga að þessu sinni. Vignir Vatnar endaði í 1.-2. sæti í A flokki (2. sæti á stigum) og Benedikt Briem endaði í 2. sæti í C-flokki.

Verðlaunahafarnir og félagarnir Vignir Vatnar og Benedikt Briem

A flokkur:

Vignir og Hilmir mættust í morgunumferðinni. Þeir höfðu tekið þá ákvörðun að tefla til þrautar – jafnteflisumleitanir væru ekki í boði. Eftir rólega byrjun fékk Hilmir færi á því að taka frumkvæðið en fataðist ef til vill flugið. Vignir fékk upp hagstætt endatafl og vann að lokum. Sigurinn þýddi að Vignir var kominn í efsta sætið jafn öðrum keppanda.
Í lokaumferðinni lagði Vignir að velli hinn hálf-íslenska Baldur Th. Petersen, eftir spennandi endatafl. Líklega missti Baldur af jafntefli en það útheimti mikinn og nákvæman útreikning og enginn tími á klukkunni fyrir slíkt. Hilmir vann sannfærandi sigur á Finnanum Torvninen.
Eftir stigaútreikning kom í ljós að Norðmaðurinn Ellingsen var hærri á stigaútreikningi en Vignir og hirti þar með gullið. Vignir fékk silfurverðlaun.
Vignir getur verið mjög sáttur við frammistöðuna á mótinu. Taflmennskan og stíllinn hafa  tekið út ákveðinn þroska að undanförnu og Vignir býr yfir þeim hæfileika að geta gert sér mat úr mjög litlum yfirburðum. Mjög tæknilega sterkur skákmaður. Vignir fær auk þess mikið hrós fyrir að miðla af þekkingu sinni til yngri skákmanna í hópnum.

Vignir Vatnar Stefánsson fékk 5 vinninga og endaði í 2. sæti

Hilmir Freyr byrjaði af miklum krafti í mótinu. Skákin gegn Svíanum Pantzar var líklega krítíska augnablik hans á mótinu en sigur í þeirri skák, í stað jafnteflis, hefði sett hann í vænlega stöðu. Hilmir er gríðarlega hugmyndaríkur og frjór skákmaður sem gaman er að fylgjast með við borðið.

Hilmir Freyr Heimisson fékk 3,5 vinning og endaði í 4. sæti

Sigurvegari flokksins var Mads Jetsby-Ellingsen frá Noregi.

Verðlaunahafar í A-flokki. Vignir Vatnar lengst til vinstri með silfurverðlaunin.

B flokkur:

Kristján Dagur átti mjög góðan dag. Hann byrjaði morguninn á því að leggja Finnann Vainikka að velli eftir vel útfærða skák. Róleg stöðubarátta hentar Kristjáni Degi vel og þegar hann fær sínar stöður er erfitt að eiga við hann.
Benedikt tefldi fína skák gegn Svíanum Muntean. Eftir bras í byrjununum framan af móti fékk Benni loksins möguleika á einhverju öðru en að verjast og hann gerði Svíanum erfitt fyrir. Upp kom hróksendatafl, þar sem Benni var peði yfir, en Svíinn varðist vel og hékk á jafntefli.
Kristján Dagur og Benedikt mættust svo í lokaumferðinni. Strákarnir tóku þá sameiginlegu ákvörðun að vera ekkert að semja um neitt jafntefli heldur að berjast. Það er of langt að ferðast alla leið til Færeyja til þess að semja stutt jafntefli!
Kristján Dagur náði að fá upp stöðu sem hentaði honum betur en Benna og niðurstaðan varð sigur hjá Kristjáni Degi eftir mikla stöðubaráttu. Þetta var fyrst og fremst barátta tveggja ólíkra stíla.

Kristján Dagur Jónsson fékk 4 vinninga og endaði í 2-4. sæti en hlaut 4. sætið á stigaútreikningi. Flott mót hjá Kristjáni Degi sem teflir rólega en mjög vandað.

Benedikt Þórisson fékk 1 vinning og endaði í 9. sæti. Benedikt var að tefla upp fyrir sig í þessum flokki þar sem hann á raun heima í C-flokki, vegna ungs aldurs. Mótstaðan var því hörð en Benedikt barðist af hörku. Það sem stóð í vegi fyrir honum í mótinu var fyrst og fremst að fá teflanlegar stöður eftir byrjunina. Það hentar Benna betur að hafa frumkvæðið og tefla upp á sóknaráætlanir heldur en að verjast. Í framtíðinni þarf hann að reyna að stýra skákunum sínum í þær stöðutýpur þar sem hann er öflugastur. Benedikt getur tekið margt lærdómsríkt út úr mótinu.

Benedikt og Kristján Dagur mættust í lokaumferðinni. Planið fyrir skákina var bara eitt – berjast til síðasta blóðdropa.

Sigurvegari flokksins var Gustav Torngren frá Svíþjóð.

C flokkur:

Benedikt Briem hóf daginn á jafntefli gegn stigahæsta og efsta manni mótsins, Svíanum Soderstrom sem hafði verið óstöðvandi til þessa. Benedikt fékk fína stöðu eftir byrjunina og hafði fína stjórn á stöðunni þegar keppendur þráléku. Benedikt mat stöðuna þannig að hún væri í jafnvægi vegna mislitra biskupa en vegna virkni hvítu mannanna hefði Benedikt að ósekju getað teflt aðeins áfram og látið Svíann hafa meira fyrir jafnteflinu. Í lokaumferðinni mætti Benedikt vonarstjörnu Færeyinga, Luitjen Apol Akselson. Eftir rólega byrjun í skákinni var ljóst að Svíinn Soderstrom væri að tryggja sér sigur í flokknum með sigri í sinni skák. Þá slíðruðu þeir frændur Benedikt og Luitjen vopnin og sömdu um jafntefli sem tryggði Benedikt silfurverðlaun. Benedikt fór taplaus í gegnum mótið, tefldi mjög vel útfærðar skákir og má vera mjög stoltur af sinni frammistöðu.
Benedikt Briem endaði með 4,5 vinning og lenti í 2. sæti

Gunnar Erik var nokkuð lánlaus í dag. Hann tapaði skákinni í morgunumferðinni eftir að hafa misst tökin á flókinni stöðu. Skák sem sveiflaðist til og frá og mögulega stöðutýpa sem hentaði Gunnari illa. Í lokaumferðinni valdi andstæðingur hans leið í byrjuninni sem Gunnar Erik þekkti ekki nógu vel og aftur missti hann tökin á stöðunni og tapaði. Gunnar hóf mótið á mjög vandaðri taflmennsku en náði ekki alltaf að gera sér mat úr góðum stöðum.
Gunnar Erik Guðmundsson fékk 2 vinninga og endaði í 9. sæti

Sigurvegari flokksins var Adrian Soderstrom frá Svíþjóð.

Verðlaunahafar í C-flokki. Benedikt Briem annar frá hægri með silfurverðlaunin.

D flokkur:

Mikael Bjarki lék klaufalega af sér í byrjuninni í morgunumferðinni gegn Færeyingnum Magnusen. Heilum manni undir þurfti Mikael Bjarki að núllstilla sig og berjast áfram. Honum tókst að lokum að hrista fram smá mótspil. Færeyingurinn missti tökin á stöðunni og Mikael Bjarki knúði fram sigur. Þarna sýndi Mikael Bjarki mikið baráttuþrek.
Í síðari skák dagsins fékk Mikael Bjarki þrönga stöðu eftir byrjunina en varðist vel. Skákin var löng varnarbarátta og á einum tímapunkti, eftir 4 tíma taflmennsku, fékk hann eitt tækifæri til þess að tryggja sér jafntefli. Hann missti af því og varð að játa sig sigraðan að lokum. Svekkjandi endir hjá Mikael Bjarka sem átti mjög góða spretti á mótinu.
Mikael Bjarki Heiðarsson fékk 3 vinninga og endaði í 8. sæti

Tómas fékk upp stöðu í morgunumferðinni sem hafði verið á ,,eldhúsborðinu” fyrir skákina. Hann ruglaði saman hugmyndum og fékk heldur verri stöðu sem hann náði að lokum ekki að verja og tapaði. Í síðari skákinni fékk hann jafnt tafl eftir byrjunina en fataðist flugið í endataflinu og tapaði aftur. Svekkjandi lokadagur hjá Tómasi sem, eins og Mikael Bjarki, átti góða spretti á mótinu en vantaði aðeins upp á til þess að ná að uppskera meira.
Tómas Möller fékk 2 vinninga og endaði í 10. sæti

Sigurvegari flokksins var Aku Salonen frá Finnlandi.

E flokkur:

Jósef tapaði í morgunumferðinni eftir byrjunarmistök. Hann tefldi svo kraftmikla skák í lokaumferðinni, fékk upp sína stöðu, hafði virka menn og kóngssókn og vann flottan sigur.  Jósef er í essinu sínu ef hann fær upp ,,sínar” stöður og getur þá unnið hvern sem er. Jósef fékk 3 vinninga og endaði í 8. sæti.

Guðrún Fanney vann mjög vel útfærða skák í morgunumferðinni. Hún var með sömu stöðu á borðinu eftir byrjunina og hafði komið upp í rannsóknum fyrir skákina. Á krítískum tímapunkti í miðtaflinu gaf hún sér nálægt 30 mínútur í að hugsa um einn leik og valdi þann besta! Eftir það var eftirleikurinn auðveldur. Í lokaumferðinni tefldi hún svo maraþonskák sem endaði í jafntefli. Guðrún Fanney tefldi margar langar og þéttar baráttuskákir í mótinu og nýtti umhugsunartímann sinn vel. Hún er kraftmikil og ákveðin og hennar helsti styrkleiki við taflborðið er baráttuandinn. Guðrún Fanney fékk 2,5 vinning og endaði í 9. sæti.

Sigurvegari flokksins var Havard Haug frá Noregi.

Það var fjör í borðtennisherberginu á lokakvöldinu. Mikael Bjarki með hörkusveiflu og Tómas verst með matarbakka!

Norðurlandamótið var einstaklega vel heppnað hjá Færeyingum. Hótel, matur, skáksalur og skipulag allt til fyrirmyndar. Meira að segja veðrið var gott! Finnbjorn Vang mótsstjóri, Hans Hjalte Skaale yfirdómari, Katrin Apol í mótsnefndinni og Ingolf Gaard, sem sá um beinar útsendingar, fengu öll miklar þakkir fyrir sitt vinnuframlag og allar reddingar.
Íslenski hópurinn þurfti að fara í skimun milli umferða fyrir heimferðina. Þegar kom að því að reyna að útvega leigubíl fyrir hópinn rétti mótsstjórinn Finnbjorn fram bíllyklana sína og sagði að það kæmi ekki til greina annað en við færum á hans bíl. Einkennandi fyrir frændur okkar, Færeyinga. Það voru þreyttir en stoltir Færeyingar sem svo kvöddu keppendur í mótslok.

Íslensku krakkarnir fá stórt hrós fyrir sína framkomu á mótinu, mikið vinnuframlag í stúderingum og undirbúningi fyrir skákir. Fagmannleg vinnubrögð. Einnig fá foreldrar krakkana mínar þakkir fyrir sitt hlutverk á staðnum. Þau voru oft á tíðum ekki öfundsverð af því að sitja á hliðarlínunni og hafa áhyggjur af stöðumatinu í tölvuforritunum á chess24 eða Chessbomb!

Bestu kveðjur frá Færeyjum,
Björn Ívar Karlsson

- Auglýsing -