Nú eru tveir mánuðir í að Evrópukeppni Landsliða árið 2021 hefjist í Slóveníu. Að loknu Reykjavíkurskákmóti hefur verið tekin ákvörðun um skipan íslensku liðanna.

Íslenska kvennalandsliðið skipa:

Lenka Ptacnikova (2127)

Lenku þarf vart að kynna en hún hefur um árabil verið stigahæsta skákkona landsins. Lenka er þaulreynt með landsliðinu og hefur orðið Íslandsmeistari kvenna 13 sinnum!

Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (2009)

Hallgerður er einnig mjög reynd með landsliðinu og alltaf hægt að treysta á baráttuna hjá Höllu sem er grjóthörð keppnismanneskja.

Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (1960)

Jóhanna Íslandsmeistari í hraðskák 2021

Jóhanna Björg hefur verið ein af máttarstólpum kvennaliðsins um árabil ásamt Lenku og Hallgerði og hefur verið í mikilli sókn undanfarið. Jóhanna tapaði í spennandi einvígi um Íslandsmeistaratitilinn gegn Lenku á dögunum og lyfti sér yfir 2000 stiga múrinn í fyrsta skipti.

Lisseth Acevedo Mendez (1811)

Liss tekur nú þátt í sínu fyrsta landsliðverkefni (utan netmóta) með íslenska kvennalandsliðiðnu. Liss hefur áður tekið þátt á Ólympíuskákmótum fyrir Kosta Ríka og hefur góða keppnisreynslu.

 

Hrund Hauksdóttir (1803)

Hrund tekur þátt á EM landsliða í annað skipti en hún tók einnig þátt 2015 í Reykjavík auk þess sem hún tefldi á ÓL 2016 í Baku.

 

Íslenska liðið í opnum flokki verður eingöngu skipað stórmeisturum en þeir eru:

Hjörvar Steinn Grétarsson (2597)

Omar Salama og Hjörvar Steinn á skákstað á Heimsbikarmótinu

Hjörvar Steinn Grétarsson er okkar stigahæsti skákmaður og núverandi Íslandsmeistari. Hjörvar tefldi nýlega á Heimsbikarmótinu og sýndi hvað í hann er spunnið þar.

Jóhann Hjartarson (2519)

Jóhann þarft vart að kynna en hann er einn af fremstu skákmönnum þjóðarinnar í gegnum tíðina og er enn.

Hannes Hlífar Stefánsson (2511)

Hannes Hlífar er þrettánfaldur Íslandsmeistari og hefur teflt nánast sleitulaust með landsliðinu í þrjá áratugi. Hannes er jafnframt að jafnaði okkar virkasti stórmeistari.

Guðmundur Kjartansson (2447)

Guðmundur Kjartansson með verðlaun fyrir Íslandsmeistaratitil í atskák

Guðmundur Kjartansson er orðinn fastamaður í landsliðinu og þrefaldur Íslandsmeistari, nú síðast 2020. Guðmundur hefur alltaf verið einn af okkar allra virtustu skákmönnum undanfarin ár og það hefur ekkert minnkað eftir að stórmeistaratitillinn kom í hús.

Helgi Áss Grétarsson (2447)

Helgi Áss Grétarsson varð hlutskarpastur Íslendinga á nýliðnu Reykjavíkurskákmóti / EM einstaklinga og sýndi hann þar í lokaumferðunum fjórum hvers hann er megnugur þegar hann skilaði 3 vinningum í hús í fjórum skákum gegn stórmeisturum með um 2600 elóstig að meðaltali.

 

Mótið fer fram eins og áður segir í Slóveníu, heimasíðu mótsins má nálgast hér: https://www.euroteamchess2021.eu/

- Auglýsing -