Benedikt Briem er búinn að tefla eins og sá sem valdið hefur

Öðrum keppnisdegi Norðurlandamóts ungmenna í skák í Færeyjum er lokið. Íslensku keppendurnir áttu margir góðan dag og uppskeran varð 11 vinningar af 19 mögulegum. Förum yfir úrslitin í flokkunum.

A flokkur:

Vignir hafði hvítt gegn Færeyingnum Skaale í morgunumferðinni. Vignir fór sér að engu óðslega í byrjuninni, skipti upp á drottningum, hirti biskupaparið og sótti svo að peðaveikleikum svarts í rólegheitum. Öruggur og vel útfærður sigur.
Hilmir Freyr hafði hvítt gegn stigahæsta keppanda flokksins, IM Pantzar. Hilmir tefldi mikinn rúlluskautavaríant gegn Tarrasch-afbrigði svarts og eftir miklar flækjur fékk hann upp endatafl, tveimur peðum yfir en með mislitum biskupum sem gerði vinningstilraunir erfiðar. Hilmir reyndi og reyndi en Pantzar varðist af mikilli hörku. Eftir rúmlega 100 leiki fjaraði skákin út í jafntefli og Hilmir skiljanlega svekktur að ná ekki að kreista meira en hálfan vinning úr þessu. Báðir keppendur eiga hrós skilið fyrir baráttuna.
Að lokinni 3. umferð voru fjórir keppendur efstir og jafnir með 2,5 vinning af 3. Þeirra á meðal voru Vignir og Hilmir.
Í 4. umferð fékk Vignir svart á IM Pantzar en Hilmir svart á IM Vestby-Ellingsen. Pantzar var greinilega lúinn eftir skákina við Hilmi og tefldi byrjunina frekar kraftlaust. Vignir jafnaði taflið nokkuð auðveldlega en valdi ekki nákvæmustu leiðina. Pantzar fékk smá tækifæri til þess að berjast fyrir frumkvæðinu en missti af því og skákin fjaraði fljótlega út í jafntefli.
Hilmir tefldi byrjunina af krafti gegn Norðmanninum Vestby-Ellingsen. Hilmir fórnaði peði í Rossolimo-afbrigðinu, þekkt og áhugaverð hugmynd, en hann virtist ekki fá þau færi sem hann vonaðist eftir. Norðmaðurinn náði góðum tökum á stöðunni og eftir töluverðar flækjur hafði hann sigur.
Eftir daginn er Vestby-Ellingsen efstur með 3,5 vinning en Vignir og Pantzar næstir með 3 vinninga. Hilmir Freyr hefur 2,5 vinning.

B flokkur:
Kristján Dagur hafði svart á Finnann Sinitsyn. Kristján Dagur fékk upp afbrigði sem hann hafði skoðað vel fyrir skákina og Finninn valdi svipaða leið og hafði verið kortlögð. Kristján Dagur tók yfir í miðtaflinu og vann peð á kóngsvængnum. Hann takmarkaði allt mótspil hvíts og sigldi sigrinum í höfn af miklu öryggi. Mjög vel útfærð skák hjá Kristjáni Degi.
Benedikt hafði svart gegn Færeyingnum Jakobsen. Benni fékk þrönga stöðu eftir byrjunina en varðist af hörku. Í miðtaflinu fórnaði hann manni fyrir tvö peð og fékk fín færi í leiðinni. Skákin sveiflaðist á tímabili en fjaraði að lokum út í jafntefli sem var sanngjörn niðurstaða.
Í síðari skák dagsins fékk Benni hvítt á Finnan Sinitsyn en Kristján Dagur svart á Danann Meskenas. Benni lenti í vandræðum eftir byrjunina og fékk upp strategískt erfiða stöðu.  Hann náði aldrei að komast aftur inn í skákina og tapaði á endanum. Tapið skrifast á ónákvæmnina í byrjuninni.
Kristján Dagur fékk upp byrjun sem hann hafi skoðað fyrir umferðina. Hann sneiddi hjá algengustu leiðinni en fékk engu að síður vel teflanlega stöðu. Daninn fór í miklar aðgerðir á kóngsvæng en Kristján varðist vel og átti um tíma möguleika á því að taka yfir í skákinni. Eftir að upp kom jafnteflislegt endatafl urðu Kristjáni á mistök sem kostuðu skákina.
Kristján Dagur hefur 2 vinninga af 4 en Benedikt hefur 0,5 vinning.

C flokkur:
Benedikt Briem fékk svart á Norðmanninn Ihlen í morgunumferðinni. Staða Benedikts eftir byrjunina var þröng en mjög traust. Hann gerði rétt í því að létta á stöðunni með uppskiptum og bíða þolinmóður. Daninn lék á einum tímapunkti slæmum leik sem Benedikt nýtti sér vel og fékk upp vænlegt endatafl sem hann kláraði af miklu öryggi. Mjög þroskuð og flott taflmennska hjá Benedikt.
Gunnar Erik mætti Dananum Burgaard með hvítu. Gunnar fékk rýmra tafl eftir byrjunina og eins og áður í hans skákum var mjög vönduð taflmennska uppi á teningunum. Daninn varðist mjög vel og náði að stýra skákinni í jafnt endatafl. Keppendur sættust svo á jafntefli. Aftur smá svekkelsi hjá Gunnari Erik að fá ekki meira út úr skákinni en jafntefli eftir góða taflmennsku.
Í 4. umferðinni var Benedikt kominn á efstu borðin enda í hópi efstu manna með 2,5 vinning. Hann hafði hvítt á Danann Iskos. Drottningaruppskipti urðu snemma í byrjuninni en Benedikt hélt samt frumkvæðinu og náði með skemmtilegum peðsleik að uppskera vænlega miðtaflsstöðu.

Hér lék Benedikt 15. e6! og eftir 15…Bxe6 kom 16. Hxe6! Það besta sem svartur á er 16…fxe6 17. Bxe6+ Hf7 en hvítur hefur mjög góð færi. Svartur valdi hins vegar 16…Rde5? en eftir 17. Hxc6 Rxc6 hafði Benedikt tvo biskupa fyrir hrók og peð og virka menn um leið.

Úrvinnslan var svo bæði fagmannleg og örugg hjá Benedikt sem gaf svörtum aldrei færi á því að losa sig. Virkilega vel útfærð skák.

Benedikt Briem er búinn að tefla eins og sá sem valdið hefur

Gunnar Erik hafði svart gegn Færeyingnum Petersen. Gunnar hafði fjórum sinnum áður teflt við Petersen og unnið allar skákirnar. Það skor átti ekki að breytast í dag því Gunnar tefldi byrjunina mun betur og uppskar yfirburðarstöðu. Eftir taktísk mistök Færeyingsins vann Gunnar peð og tók svo algjörlega yfir stöðuna. Hann vann svo af miklu öryggi. Mjög góð skák.

Benedikt er í 2. sæti með 3,5 vinning og mætir efsta manni mótsins í fyrramálið. Gunnar Erik hefur 2 vinninga.

D flokkur:
Mikael Bjarki og Tómas mættust í innbyrðis viðureign í fyrri skák dagsins. Mikael Bjarki hafði hvítt og eftir hefðbundna byrjunartaflmennsku fékk Mikael Bjarki tækifæri á peðaframrás sem reyndist Tómasi erfið viðureignar. Fór svo að Mikael Bjarki fékk mikla stöðuyfirburði og vann af miklu öryggi í framhaldinu.

Íslendingaslagur í morgunumferð dagsins

Í síðari skák dagsins hafði Tómas hvítt á Færeyinginn Magnussen. Tómas fékk upp spænska leikinn sem hann þekkir vel, tefldi af yfirvegun og lét Færeyinginn um að gera mistök. Þau mistök komu á endanum þegar Tómas vann peð. Uppskipti á mönnum í kjölfarið einfölduðu stöðuna og gerðu vinninginn auðveldan fyrir Tómas. Sannfærandi sigur.
Mikael Bjarki hafði svart á Færeyinginn Brestir. Upp kom Caro Kann vörn og Mikael Bjarki náði hagstæðum uppskiptum á mönnum. Hann tapaði peði í framhaldinu en vann það til baka. Í flækjunum lék Færeyingurinn af sér skiptamun. Eftirleikurinn var þó ekki auðveldur fyrir Mikael Bjarka sem þurfti að vinna endatafl með hrók og þrjú peð gegn riddara og þremur peðum, allt á sama væng. Mikael Bjarki fór sér að engu óðslega og vann öruggan sigur að lokum.
Mikael Bjarki og Tómas hafa báðir 2 vinninga.

E flokkur:
Jósef hafði hvítt gegn hinni dönsku Derlich. Jósef fékk upp byrjunarstöðu sem hann þekkir vel og svartur tók á sig varanlega veikleika á svörtu reitunum á kóngsvængnum. Jósef stillti upp í mikla sóknarstöðu og fékk svo á einum tímapunkti ótrúlega hugmynd.

Hér lék okkar maður 23. Df6!? sem var mjög erfiður fyrir svartan. Framhaldið varð 23…Rxf6 24. Hd8+ Ke7 25. exf6+ Kxf6 26. Be5+ Ke7 27. g5! hxg5 28. hxg5 f5 29. Bf6+ Kf7 30. Re5 mát!

Jósef tefldi sóknarskák dagsins!

Guðrún Fanney fékk upp byrjunarstöðu sem hún hafði skoðað fyrir skákina. Í framhaldinu valdi hún drottningunni sinni rangan reit og þurfti að taka á sig verri stöðu. Hún varðist mjög vel og var við það að jafna taflið þegar henni urðu á mistök og tapaði. Góð barátta hjá Guðrúnu Fanneyju.

Jósef fékk svart í síðari skák dagsins gegn Dananum Sandmann. Jósef reyndi frumlega hugmynd í byrjuninni sem gekk ekki fullkomlega upp. Daninn vann peð en Jósef gat á einum tímapunkti lagað stöðu sína og fengið færi. Daninn fór í stórsókn sem Jósef réð ekki við og tapaði.
Guðrún Fanney hafði hvítt á Danann Miagmarsuren. Eftir byrjunina átti Daninn leiðindar trikk sem vann peð og opnaði kóngsstöðu Guðrúnar Fanneyjar. Þrátt fyrir hetjulega baráttu dugði það ekki til og Daninn vann að lokum.
Jósef hefur 2 vinninga og Guðrún Fanney 1.

Ágætur dagur hjá íslensku keppendunum og baráttan heldur áfram á morgun kl. 9, að íslenskum tíma. Vignir og Hilmir mætast innbyrðis í toppbaráttunni og það er alltaf hálf leiðinleg pörun. Það er hins vegar nánast óhjákvæmilegur partur af þessu móti. Benedikt Briem á stóra skák í fyrramálið gegn Svíanum öfluga, Soderström. Gunnar Erik á möguleika á því að blanda sér í toppbaráttuna á morgun. Aðrir keppendur geta lyft sér upp úr miðju- og botnbaráttu ef þeir eiga góðan dag.

Beinar útsendingar

Heimasíða mótsins

Mótið á chess-results

- Auglýsing -