Efstur Vincent Keymer komst í efsta sætið á fimmtudagskvöldið. — Morgunblaðið/Heimasíða REK/EM

Eins og komið hefur fram í fyrri pistlum greinarhöfundar komst Rauf Mamedov frá Aserbaídsjan einn í efsta sæti Reykjavíkurmótsins/EM einstaklinga eftir fimm umferðir af ellefu. Hann hélt forystunni með sannfærandi sigri í 6. umferð en hefur síðan gert tvö stutt jafntefli. Kannski vinnur hann mótið, hver veit, en það verður þó að teljast ólíklegt; að semja jafntefli eftir nokkra leiki og ganga svo frá borði hefur aldrei verið talið líklegt til árangurs í opnum mótum. Jafnframt vaknar sú spurning af hverju svo stutt jafntefli eru leyfð en flest stórmót nú til dags girða fyrir þann möguleika með svonefndri 30 leikja reglu eða annarri sem kennd er við höfuðborg Búlgaríu, Sofíu. En hvað um það, eftir 8. umferð fimmtudagsins höfðu tveir keppendur komist upp við hlið Aserans en staða efstu manna var þá þessi: 1. – 3. Demchenko (Rússlandi), Rauf Mamedov (Aserbaídsjan) og Keymer (Þýskalandi ) 6½ v. 4. – 9. Gabusjan (Armeníu), Kacper (Póllandi), Sarana (Rússlandi), Romanov (Rússlandi), Mustafa (Tyrklandi) og Nidjat Mamedov (Aserbaídsjan) 6 v.

Um nokkurt skeið hefur verið beðið eftir frábærri frammistöðu Þjóðverjans unga, Vincent Keymer, sem komst í fréttirnar snemma árs 2018 er hann vann opna Grenke-mótið í Þýskalandi með því að hljóta 8 vinninga af 9 mögulegum og varð fyrir ofan 49 stórmeistara. Keymer sem er aðeins 16 ára gamall skaust í toppsætið á Hotel Natura með því að leggja David Navara að velli í 60 leikjum með svörtu eftir miklar flækjur.

Bestu íslensku skákmennirnir virðast ekki eiga mikla möguleika á því að blanda sér í baráttuna um efstu sætin. Þeir hafa verið að skiptast á einhvers konar forystusæti í „innbyrðis keppni“ allt mótið. Um tíma var Hjörvar Steinn Grétarsson efstur en svo tók Hannes Hlífar við. Eftir umferðina á fimmtudaginn komst Helgi Áss Grétarsson hins vegar fram úr með góðum sigri og hefur nú 5 vinninga af átta mögulegum. Sigur hans yfir Marin Bosiocic frá Króatíu var glæsilegur; eftir snúna byrjun ríkti ákveðið jafnvægi á skákborðinu og sennilega var Bosiosic að tefla til vinnings en möguleikarnir lágu samt einhvern veginn allir Helga megin. Í lokin náði Helgi að snara andstæðing sinn í mátnet:

Reykjavíkurskákmótið/Evrópumót einstaklinga, 8. umferð:

Sjá stöðumynd 1.

Marin Bosiocic – Helgi Áss Grétarsson

Hvítur er peði yfir en Helgi getur jafnað þann mun með því að leika 45. … Hxf5. En hann sá færi á því að tefla til vinnings …

45. … Bd4!

Beinir skeytum sínum að b6-peðinu en meira býr undir.

46. Hh7 Ha2+! 47. Kh3 Kxf5!

Og nú gengur ekki 48. Hxg7 vegna 48. … Bg1! sem hótar máti og vinnur strax.

48. Bc7 g5!

Hótar enn máti með 49. … g4+ og 50. … Hxh2 mát.

49. g4+ Ke4 50. He7+?

Eina von um björgun var að leika 50. Hd7.

50. … Kf3 51. He8

Ekki dugar 51. Hf7 vegna 51. … Ha8 og vinnur.

51. … f5! 52. gxf5

Eða 52. Hf8 f4! sem hótar enn 53. … Bg1 o.s.frv.

52. … Bf6! 53. Hg8 Ha8!

 

 

 

 

Óþægilegur hnykkur, 54. Hxa8 er svarað með 54. … g4 mát.

54. Be5 g4+!

og hvítur gafst upp. Mátið blasir við eftir 55. Hxg4 Hh8+.

Mestu stigahækkun eins og staðan var eftir átta umferðir hafði Arnar Milutin Heiðarsson náð og stóð hækkunin í 74 elo-stigum.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 4. september. 

- Auglýsing -