Gummi að tafli í gær. Mynd: Heimasíða mótsins.

EM einstaklinga hófst í gær í Terme Catez í Slóveníu. Stórmeistararnir Hannes Hlífar Stefánsson (2520) og Guðmundur Kjartansson (2450) eru fulltrúar Íslands á mótinu.

Báðir unnu þeir í fyrstu umferð – fremur stigalága andstæðinga (2015-2180). Önnur umferð fer fram í dag og þá mæta þeir báðir sterkum andstæðingum. Hannes teflir við úkraínska stórmeistarann Andrei Voloktitin (2687), sem er fjórði í stigaröð keppenda, en Gummi mætir danska stórmeistaranum Jesper Thybo Söndergaard (2590).

Frá mótsstað. Mynd: Heimasíða mótsins.

Athygli vekur að Úkraínumenn eru fjölmennastir allra á mótinu en 35 slíkir taka þátt. Vegna reglna ECU um rússneska skákmanna, þar sem gerð er krafa um að menn séu skráðir undir fána FIDE, á stigalistanum, taka aðeins fjórir slíkir þátt og enginn þeirra meðal stigahæstu keppenda mótsins.

Alls taka 317 skákmenn frá 40 löndum þátt í mótinu. Þar af eru 114 stórmeistarar.  20 efstu sætin gefa keppnisrétt á heimsbikarmótinu í skák á næsta ári. Hannes er nr. 94 í stigaröð keppenda en Guðmundur er nr. 133.

 

- Auglýsing -