Í heildina komu sjö og hálfur vinningur í hús hjá íslenska hópnum í 8. umferð Evrópumóts ungmenna í skák hér í Tyrklandi.

Birkir, Oliver, Sigurður Páll, Benedikt Þórisson og Alexander Domalchuk-Jonasson unnu sínar skákir í dag auk þess sem Adam Omarsson fékk vinning vegna yfirsetu. Jafntefli gerðu Josef, Benedikt Briem og Ingvar Wu. Aðrir töpuðu sínum skákum.

Birkir Hallmundarson vann sína aðra skák í röð í U10 flokknum og er á fínu róli í sínum flokki og með góðan stigagróða. Birkir var í hremmingum eftir byrjunina en klóraði sig vel fram úr því af sínu alkunna baráttuþreki og trikkaði að lokum andstæðing sinn með skemmtilegri taktík. Barcelona bolirnir að gefa hjá okkar manni!

Oliver Kovalcik vann einnig sinn annan sigur í röð í U10 flokknum. Framfarir Olivers hafa verið mjög sjáanlegar á þessu móti og skemmtilegt að fylgjast með. Hann hefur nýtt þetta mót mjög vel í að bæta sig sem skákmaður. Sigurinn í 8. umferð var stílhreinn og sannfærandi.

Sigurður Páll Guðnýjarson hefur verið mjög agaður í sínum stúderingum á þessu móti og það skilaði sér í byrjuninni í skák dagsins þar sem hann fékk betri stöðu nánast beint úr undirbúning dagsins. Sigurður tefldi eins og herforingi og sigldi sigrinum í örugga höfn. Andstæðingur hans reyndi eins og hann gat að fá mótspil en Sigurður Páll stöðvaði það allt með stóiskri ró.

Benedikt Þórisson vann nokkuð auðveldan sigur í sinni skák. Benedikt hefur yfirleitt mætt vel undirbúinn til leiks og skák dagsins var engin undantekning. Framan af móti var Benedikt óheppinn að fá andstæðinga með nánast engar skákir í gagnagrunni og því ójafnar forsendur þar sem andstæðingar hans fá fjölda skáka til að undirbúa sig. Andstæðingur dagsins var nokkuð fyrirsjáanlegur og tefldi yfirleitt Philidor gegn 1.e4. Benedikt undirbjó hvasst og athyglisvert afbrigði með 5.Hg1. Flottur sigur.

5.Hg1 afbrigðið var undirbúið vel fyrir skák dagsins!

Alexander Domalchuk-Jonasson mætti ísraelskum alþjóðlegum meistara í skák dagsins. Alexander beitti aftur h3 afbrigðinu í kóngindverja sem gafst svo vel fyrr í mótinu. Ísraelinn virtist velja mjög vafasama leið þegar hann þeytti b-peði sínu fram en slíkt framrás er þekkt í Benoni-byrjun í hinu svokallaða „modern mainline“. Það að biskup hvíts var kominn og sérstaklega að hrókur svarts stóð illa á e8 þýðir að þessi framrás er líklega slæm.

Alexander nýtti sér þetta og vann lið. Honum tókst hinsvegar ekki að vinna nægjanlega vel úr liðsyfirburðunum og skákin virtist stefna í jafntefli þegar kraftaverkið gerðist. Í fræðilegri jafnteflisstöðu lék svartur kóngi sínum á f6 í 50. leik þegar 50…Kd7 var eini leikurinn til að halda jafnteflinu. Örfáum leikjum síðar lá fyrir að svartur myndi tapa riddara sínum og skákinni þar með.

Mikilvægur sigur hjá Alexander sem nægir jafntefli í lokaumferðinni til að tryggja sér sinn fyrsta áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.

Annars er það að frétta hér að foreldrar fengu skemmtilega bridge kennslu í upphafi umferðar. Helgi Ólafsson tók að sér kennsluna en kenndi reyndar úrelt sagnakerfi, hið svokallaða Vínarkerfi…sem þó hefur gefið einn heimsmeistaratitil að sögn Helga. Kennslan virtist ganga vel og voru nemendur komnir með 100 stig en kennari 30 stig. Ekki er greinarhöfundur nógu kunnugur stigakerfi í bridge til að túlka þessar niðurstöður.

Undirbúningur fyrir 8. umferð
Guðrún Fanney við undirbúning

Pörun 9. umferðar sem hefst 07:00 að íslenskum tíma á morgun. Aleksandr verður áfram í beinni útsendingu á morgun teflir upp á áfanga eins og áður sagði. Fyrsti Íslendingaslagurinn fer einnig fram á morgun. Stórvinirnir og TR-ingarnir Adam Omarsson og Ingvar Wu Skarphéðinsson mætast þá.

Heimasíða mótsins
Beinar útsendingar
Chess-results

- Auglýsing -