Stórmeistarinn Henrik Danielsen er efstur á Íslandsmótinu í skák með fullt hús eftir tvær umferðir. Hann lagði Braga Þorfinnsson að velli og var það merkilegt nokk, fyrsta sigurskák með hvítu mönnunum á mótinu! Fjórar skákir hafa unnist á svart.
GM Vignir Vatnar Stefánsson (½) – GM Hjörvar Steinn Grétarsson (½)

Vignir hefur eflaust komið Hjörvari eitthvað á óvart með 1.e4 og valdi Vignir 6.Hg1 einshverskonar tískuafbrigði gegn Najdorf. Vignir fékk eilítið betra tafl og líklega hefði hann átt að hafna drottningaruppskiptum. Taphætta var aldrei til staðar hjá Hjörvari og jafntefli rökrétt niðurstaða í þessari skák.
GM Henrik Danielsen (1) – GM Bragi Þorfinnsson (½)

Henrik beitti Flekkótta Egginu (speckled egg) sem er afbrigði sem enski stórmeistarinn Keith Arkell hefur oft beitt á helgarmótum. Hvítur fékk svosem úr litlu að moða og Bragi jafnaði taflið. Henrik sýndi þá hvað í honum býr í endatöflunum og náði svo sannarlega að kreysta fram vinning úr nánast engu.

48.Rb6!! var smekklegur leikur sem hugnaðist tölvuforritum Chess.com svona líka vel.
WGM Lenka Ptácníková (1) – GM Jóhann Hjartarson (½)

Skemmtileg og dýnamísk skák. Báðir aðilar virtust eiga sín fær í þessari skák en hvorugur nóg til að veita hinum skráveifu. Jafntefli eftir mikla baráttu þar sem umframpeð Lenku í lokastöðunni nægði ekki til.
GM Guðmundur Kjartansson (1) – IM Hilmir Freyr Heimisson (½)

Þung skák þar sem hjakkast var í grennd við 0.00 mest alla skákina. 22.Bxg5 gladdi þó augað, smekkleg taktík til að reyna að fá eitthvað ójafnvægi í stöðuna.

IM Dagur Ragnarsson (½) – GM Hannes Hlífar Stefánsson (0)

Dagur tefldi hvasst gegn Nimzo-indverja Hannesar. Engu að síður var það Hannes sem í miðtaflinu fórnaði peði og fékk glimrandi frumkvæði sem hann nýtti vel og vann góðan sigur.
FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson (0) – Jóhann Ingvason (0)

Þessi skák virtist að mörgu leiti ætla að þróast eins og skákin í fyrstu umferð hjá Aleksandr. Hann fékk þægilegra tafl með hvítt og við það að brjótast í gegn svo var eins og hvítur væri við það að missa tökin á stöðunni. Svartur fékk svo betri sénsa í hróksendataflinu en ekki nægjanlega til að vinna.
Þetta hefði þó allt saman getað verið öðruvísi. Aleksandr lék í raun af sér skákinni í 24. leik en Jóhann missti af tiltölulega einfaldri leið til að fá mun betra tafl.


Henrik efstur og Lenka og Guðmundur þar á eftir. Skemmtilegt að allir keppendur eru komnir á blað!
Glæsileg umgjörð verður á mótinu. Allir skákirnar í beinni (þó með 15 mínútna seinkun) og beinar lýsingar á YouTube.
Útsendingar á netinu hefjast því ekki fyrr en kl. 15:15. Skýringar á milli 16 og 16:30.
Styrktaraðilar mótsins eru
- Hafnarfjarðarkaupstaður
- Algalíf
- Teva
- Lengjan
- Guðmundur Arason
- MótX
Tenglar
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results
- Skákvarpið
- Beinar útsendingar (Chess.com)
- BEinar útsendingar (Chess24)
- Beinar útsendingar (Chessbase)
- Beinar útsendingar (kingwatcher)















