Íslenska liðið fékk „uppfært“ enskt lið íí 2. umferð á EM 50+ í Slóveníu. Ísland lagði England III í 1. umferðinni en mættu England II í dag. Viðureignin varð æsispennandi og Ísland náði að kreysta fram sigur með minnsta mun.

Enska liðið sterkara á pappírnum heldur en samlandar þeirra frá því í gær. Þröstur Þórhallsson hvíldi hjá íslenska liðinu.

Ágúst Sindri Karlsson hafði svart á fjórða borði gegn Philip Crocker (2103). Í miðtaflinu snerist allt um d4 peð svarts. Svartur hékk á því dýnamískt en tapaði peðinu á endanum. Í kjölfarið kom slakur leikur.

32.Hxd4 vann loks d4 peðið eftir mikla baráttu. Hér hefði svartur getað barist með 32…Rf6 en eftir gerðan leik 32…Re5? vantar riddarann reit eftir 33.f4! og endatafinu var ekki hægt að bjarga. Við byrjum því á tapi.

Björgvin Jónsson fékk hvítt gegn Chris Duncan (2158) á þriðja borði og fékk fína séns. Vann peð eftir sviptingar í byrjuinni þar sem svartur fórnaði skiptamun en Björgvin gaf hann til baka. Peðið hefði líklegast átt að duga til að gera eitthvað en örlítið vantaði upp á í endtaflinu.

28.exf6? gaf eftir e5 reitinn en 28.Kd4 hefði verið betri. Óvíst er hvort það hefði dugað til sigurs en mikil munur er þó í tölvumatinu á þessum leikjum. Duncan náði að halda velli og tryggja jafntefli þrátt fyrir ágætis tilraunir Björgvins.

Jóhann mætti Stephen Dishman (2294) á efsta borði. Einhverjir skákmenn fengu vægt taugaáfall þegar þessi staða birtist í útsendingunni…

Hér kom 7.Dg5?! g6 8.Dxg6 Rxg6. Hér er á ferðinni svokölluð DGT villa sem kemur stundum þegar löngum hróks eða drottningarleikjum er leikið. Borðið nemur þá eins og maðurinn hafi stoppað fyrr og fer svo að reyna að skálda upp leiki sem passa við stöðuna sem komin er á borðið. Skömmu síðar var þetta lagað og 7.Dxg7 eins og leikið var sást í netheimum!

Jóhann fékk eins og í gær kannski ekkert sérstaka stöðu eftir byrjunina en fór smátt og smátt að sýna styrkleikamuninn í miðtaflinu. 40. leikur diska-mannsins var líklegast ónákvæmur 40…Hb3?!

Jóhann svaraði 41.Rc5+ Bxc5 42.Hxb3 axb3 43.Hxc5 í kjölfarið féll b-peðið og Jóhann fékk fína vinningssénsa þrátt fyrir mislita biskupa. Jóhann hafði að lokum sigurinn í endataflinu eftir lærdómsríkt gegnumbrot.

Staðan þegar hér var komið við sögu því 1,5-1,5 og aðeins skák Margeirs Péturssonar gegn Chris Beaumont (2191) stóð eftir á öðru borði. Ljóst að viðureignin myndi ráðast hér!

Margeir fékk strategískt yfirburðatafl snemma eftir byrjunina og hefði vel getað náð auðveldum sigri. Beaumont varðist hinsvegar ótrúlega vel í skítastöðu og náði að halda velli fram að tímamörkum og var þá kominn yfir það versta.

Margeir með svart hafði enn betra tafl en nú var orðið ansi snúið að brjótast í gegn. Það sem Margeir gerði nú var að bíða átekta og sjá hvernig aðrar viðureignir enduðu. Við tók „hringekjufræði“ þar sem menn svarts fór í hringi, kóngurinn lagaði og beðið átekta.

Þessi taktík bar ávöxt þegar Beaumont missti þolinmæðina og lék 75.Dd2? sem gaf Margeiri sénsinn sem hann þurfti 75…Dxd2! 76.Hxd2 Hxb3! tæknilega úrvinnslan vafðist ekki fyrir Margeiri sem fékk tvö samstæð frípeð fyrir skiptamuninn og sigldi sigrinum heim, 2,5-1,5!

Tæpur sigur en að ná sigrinum var fyrir öllu!

Íslenska liðið er efst ásamt fjórum öðrum sveitum. Helst bar til tíðinda að sveit Svartfjallalands lagði sveit Englendinga að velli í umferðinni. Ísland fær einmitt þessa sveit frá Svartfjallalandi í næstu umferð.

Tefldar eru 9 umferðir á mótinu og er íslenska liðið nokkuð þétt, skipað þremur stórmeisturum og númer 3 í styrkleikaröðinni.

Lið Íslands skipa:

  1. GM Jóhann Hjartarson (2453)
  2. GM Margeir Pétursson (2407)
  3. GM Þröstur Þórhallsson (2383)
  4. IM Björgvin Jónsson (2314)
  5. FM Ágúst Sindri Karlsson (2228)

Liðsstjóri er Jón Gunnar Jónsson.

- Auglýsing -