Efnilegustu skákmenn Íslands, Vignir Vatnar Stefánsson, Hilmir Freyr Heimisson og Aleksandr Domalchuk-Jonasson taka nú þátt í öflugum lokuðum flokki í Danmörku. Í boði eru GM áfangar ef vel gengur!

Tefldar voru tvær umferðir í dag eins og alla daga nema þegar lokaumferðin fer fram. Íslensku strákunum gekk skínandi og hafa allir 1,5 vinning af 2 mögulegum og í raun misstu okkar menn aðeins hálfan vinning niður í dag þar sem Hilmir og Aleksandr tefldu innbyrðis í 2. umferð.

Vignir hafði hvítt gegn GM Vitaly Kunin í fyrstu umferðinni og fékk þægilegra tafl með úr Katalan-byrjun. Kunin fórnaði skiptamun fyrir ákveðna stöðulega bindingu og skömmu síðar þráléku keppendur.

Aleksandr lagði danska alþjóðlega meistarann Uffe Vinter-Schou í 1. umferðinni. Sasha þurfti að vinna sig inn í skákina í frönsku vörninni en þegar riddarar hans stefndu öllum kröftum sínum á f4 reitinn unnu hinir svörtu mennirnir með og hvíta staðan hrundi.

Hilmir mætti IM Martin Haubro með hvítu. Tefldur var Anti-Moscow gambítur, byrjun sem gæti eiginlega ekki hentað Hilmir betur. Hilmir sýndi nákvæmlega af hverju og reykspólaði yfir Danann eftir að hafa fórnað manni snemma til að rífa upp kóngsstöðu svarts.

Hilmir og Aleksandr mættust svo í 2. umferð. Aleksadr hafði hvítt og úr varð löng baráttuskák! Það stefndi þó ekki í mikla baráttuskák framan af.

Hér lék Sasha 18.b3?? og gleymdi veikasta reitnum á borðinu í byrjuninni. 18…Rfg4 og hvítur getur ekki valdað f2! Aleksandr sýndi ótrúlegan karakter og seiglu og barðist með kjafti og klóm og komst í endatafl með mislingum og náði að halda jafnteflinu!

Vignir hafði aftur hvítt í 2.umferðinni og þar tefldi hann fína skák gegn IM Nikolaj Borge. Sá danski gaf Vigni biskupaparið og skildi eftir peðaveikleika. Vignir lét þetta líta út eins og þvingaðan vinning án vandkvæða!

Félagarnir hafa því allir 1,5 vinning af 2 og framundan önnur tvöföld umferð á morgun.

- Auglýsing -