Þröstur að tafli Mynd: Mark LIvshitz / Heimasíða mótsins

Íslenska liðið varð að sætta sig við skiptan hlut á EM öldungasveita (50+) sem fram fer í Slóveníu. Liðið mætti sveit Svartfjallalands í þriðju umferðinni. Góðu fréttirnar voru þær að ekkert lið hefur fullt hús og Ísland ennþá í jöfnu efsta sæti.

Jóhann Hjartarson hvíldi í þessari umferð og því tefldi Margeir Pétursson á efsta borði og fékk þar svart á GM Nejosbja Nikcevic (2346). Úr varð mikil baráttuskák þar sem báðir áttu sín færi. Margeir var kominn með fín sóknarfæri en missti tökin í tímahraki í miklum flækjum.

Margeir lék hér 38…h3? sem er mennskur leikur en gefur hvítum endatafl með umframpeð. Tölvurnar benda á 38…Hb8! 39.Dxd5 Bxf2+ 40.Kxf2 Hb2+ 41.Kg1 h3 42.Bh1 (hvítur hefur ekki tíma í að skipta upp á drottningum vegna Hxg2+) 42…g3 43.Bf3 Dxd5 44.Bxd5 Hxh2 sem tölvurnar meta sem 0.00!

Þetta er reyndar enginn að fara að sjá og ef hann sæi það væri erfitt að meta stöðuna rétt! Nikcevic kláraði endataflið.

Það kom í hlut Þrastar Þórhallssonar á öðru borði að jafna metin. Hann lagði IM Boro Miljanic (2340) að velli. Þröstur komst inn í svörtu stöðuna í endtafli.

41…Re8? var slakur þar sem 41…Dxb2 ætti að halda á svart. Eftir 42.Df8 fóru svörtu peðin að falla.

Björgvin Jónsson jafnaði auðveldlega taflið í Drekanum gegn IM Bogdan Podlesnik (2280). Upp kom hróksendatafl þar sem svartur var ekki í neinum vandræðum og jafntefli samið.

Ágúst Sindri hafði hvítt á fjórða borði gegn IM Dusan Lekic (2302). Ágúst fékk aðeins betra tafl úr uppskiptaafbrigðinu í spænska leiknum en aldrei nóg til að ógna svörtum. Umfram peð hvíts var ekki nóg í endtafli með mislitum biskupum.

Jafntefli gegn jafnri sveit. Ekkert frábært en ekkert slæmt.

Staðan:

Íslenska liðið er enn efst ásamt fjórum öðrum sveitum. Á efsta borði skildu Ítalir jafnir gegn Ungverjum. Við mætum einmitt Ungverjum í næstu umferð.

Tefldar eru 9 umferðir á mótinu og er íslenska liðið nokkuð þétt, skipað þremur stórmeisturum og númer 3 í styrkleikaröðinni.

Lið Íslands skipa:

  1. GM Jóhann Hjartarson (2453)
  2. GM Margeir Pétursson (2407)
  3. GM Þröstur Þórhallsson (2383)
  4. IM Björgvin Jónsson (2314)
  5. FM Ágúst Sindri Karlsson (2228)

Liðsstjóri er Jón Gunnar Jónsson.

- Auglýsing -