Skákþing Reykjavíkur hófst í gær og er óhætt að segja að Dr. Arpad Elo hafi spáð nokkuð rétt fyrir um gang mála en eins og svo oft vill gerast í opnum mótum með svissnesku kerfi þá vinnur sá stigahærri ansi oft. Sú varð raunin í gær og það var aðeins hinn ungi og efnilega Dagur Sverrisson sem náði að forðast tap gegn stigahærri andstæðingi. Semsagt nánast allt eftir bókinni.
Gunnar Björnsson forseti Skáksambandsins lék fyrsta leiknum fyrir Josef Omarsson gegn Vigni Vatnar Stefánssyni á efsta borði. Gærdagurinn var einmitt 7 ára afmæli „Skáksambandsmálsins“ svokallaða.
Vignir náði að vinna nokkuð „clean“ eins og krakkarnir segja. Josef fann ekki góða uppstillingu á hvítt og eftir að Vignir náði góðu valdi á f-línunni og svörtu reitunum þurfti nánast ekki að spyrja að leikslokum.
Sigurður Páll með svörtu lét Hilmir Frey virkilega hafa fyrir hlutunum með því að sýna góða þekkingu í Semi-Tarrasch sem hann er kominn með ansi góða reynslu.
Staðan hér í jafnvægi en nú loks missteig Sigurður sig með 23…He8?? Refsingin ekki augljós en Hilmir fann 24.He7! og svartur gaf eftir 24…Kh7 25.Bc2+ (25.d7 gengur líka).
Bárður hafði sigur gegn Birki Hallmundar í lengstu skák umferðarinnar. Sterkur riddari Bárðs á e5 reitnum reyndist lykilmaður í þessari skák.
Ingvar fékk þægilega stöðu í afbrigði í London sem hann hafði teflt tiltölulega nýlega gegn Oliver Aron á Íslandsmóti Skákfélaga. Í miðtaflinu kom þó séns fyrir Jóhann.
24.Be4?? var ekki góður leikur og hér hefði Jóhann getað sent Ingvar í kalda sturtu með 24…Dxf4!! þar sem 25.Bxd5 er ekki í boði útaf 25…exd5 og hrókurinn á d2 tapast. Svartur féll á tíma í 38. leik en staðan þá töpuð.
Símon náði skemmtilegri sókn í sikileyjarvörn með klassískri skiptamunsfórn á c3-reitnum. Sókn hans varð fljótt nánast óstöðvandi.
Oliver vann þægilegan sigur á sjötta borði. Kristján lenti í taktískum vandræðum fljótlega eftir byrjunina.
Örvar Hólm og Mikael Jóhann tefldu mjög tvísýna skák.
Örvar hefði líklegast náð allavega þráskák með 27.Db8+ og skáka svo á a7 þar sem hvítur skákar á d4 ef svarti kóngurinn reynir að hlaupa í gegnum f6 eins og í skákinni. Mikael náði að sná á bárð í flækjunum.
Einu óvæntu úrslitin voru hjá hinum unga Degi Sverrissyni sem þjarmaði að hinum reynda Kristjáni Erni. Kristján náði að vinna sig inn í skákina en var þá sleginn skákblindu með Hb1+ og fékk tapað tafl. Dagur hefði átt að vinna úr því en fljótfærnin fór aðeins með hann í lokin og hann tapaði mikilvægum peðum. Athugið að nokkra leiki vantar í enda skákarinnar.
2. umferð fer fram á sunnudaginn og strax hörkuviðureignir. Vignir mætir Lenku, Benedikt Þórisson mætir Hilmi, Bárður mætir Arnari Milutin og Þorvarður Fannar mætir Ingvari. Spenna framundan í Feninu!