Friðrik Ólafsson er það nafn sem mestum ljóma stafar af í íslenskri skáksögu. Frá miðri síðustu öld hóf þjóðin að fylgjast með árangri hans, hérlendis sem á alþjóðavettvangi. Afrek Friðriks voru glæsileg og urðu í raun hluti af sjálfsmynd þjóðar sem var nýskriðin úr faðmi danska konungsvaldsins og vildi að lýðveldið Ísland léti að sér kveða í samfélagi þjóðanna.
Þeir sem hæst báru hróður Íslands út fyrir landssteinanna á sjötta áratug seinustu aldar, þegar Friðrik hóf strandhögg á erlendri grundu, voru Albert Guðmundsson knattspyrnuhetja, Clausen bræður, Vilhjálmur Einarsson, og Gunnar Huseby en síst má gleyma skáldjöfrinum Halldóri Laxness. Svo birtist Friðrik og á örfáum árum var hann kominn í fremstu röð í heiminum í þeirri andans íþrótt, skáklistinni. Það er engin furða að Íslendingar litu til afreka Friðrik með stolti og gleði enda stækkaði hann okkur sem þjóð og fyrir það hefur hann notið virðingar um allan heim.
Sunnudaginn 26. janúar fagnar Friðrik stórafmæli sínu en þá verður hann níræður. Af því tilefni verður opið hús í Hörpu. Samkoman hefst kl. 16.00 og þætti meistaranum vænt um að sjá sem flesta.