Hátt í 40 manns sóttu fyrirlestur Stefáns Bergssonar í Miðgarði á mánudagskvöld þar sem hann leiddi gesti í sannleikann um ferðir á skákmót erlendis. Líflegar umræður mynduðust um hvar bestu mótin væri að finna og mátti sjá heimasíður flugfélaga á símum fjölda gesta í lok fyrirlestursins.

Í kjölfarið voru tefldar 7 umferðir af hraðskák. Þar börðust efstu menn febrúarmótaraðarinnar, Dagur Ragnarsson og Arnar Milutin Heiðarsson, um sigurinn. Þeir gerðu jafntefli innbyrðis en Dagur vann rest og þar með mótið. Arnar gerði hins vegar jafntefli við Gauta Pál og var því taplaus í 2. sæti. Gauti var svo þriðji með sigri gegn öllum nema efstu tveim.

Eftir fjögur mót í mótaröðinni eru Dagur og Arnar aðeins að slíta sig frá öðrum keppendum. Það er þó nóg eftir því 8 bestu mótin gilda og það eru einmitt 8 mót eftir. Næsta mót verður í kvöld þegar tefld verður atskák hjá Taflfélagi Reykjavíkur.

- Auglýsing -