Helgi Ólafsson að tafli.

Tvö einvígi kláruðust í kvöld í átta manna úrslitum á Síminn Invitational. Stórmeistarinn Helgi Ólafsson lagði Ingvar Þór Jóhannesson að velli nokkuð örugglega á meðan Hannes Hlífar fór áfram eftir algjöran naglbít gegn Braga Þorfinnssyni.

Helgi hóf einvígið með hvítu mönnunum og valdi Reti-byrjun. Greinilegt að Helgi vildi halda þunganum í miðtaflinu. Ingvar hélt sínu nokkuð vel og virtist vera að ná að komast peði yfir þegar allt væri opið. Helgi hafði hinsvegar séð lengra og lenti stungu sem greinilega hálf vankaði Ingvar.

28.Hh8!! og Ingvar gafst upp og klappaði í kjölfarið fyrir Helga. Lýsendur höfðu misst af þessari stungu sem sýnir að lengi lifir í gömlum taktískum glæðum! Helgi hlaut 96 í nákvæmniseinkunn af reiknum chess.com fyrir þessa skák!

Ingvar fór mögulega of snemma á taugum og spilaði strax út trompum sínum eftir þetta tap. Mögulega hefði mátt bíða með það þar til síðar í einvíginu. Ingvar spilaði út kóngspeði sínu sem hann hefur gert lítið af undanfarna áratugi og skv. heimildum Skak.is voru ýmsar jarðsprengjur fyrir Helga í hans helstu afbrigðum. Helgi virtist þefa þetta uppi og breytti útaf og fór í Scheveningen afbrigðið með svart. Ingvar hefur ekki mikla reynslu í sikileyjarvörninni en fór engu að síður í Keres-afbrigðið sem á að teljast gott á hvítt.

Þrátt fyrir reynsluleysið hélt Ingvar ágætis stjórn á stöðunni allavega þegar kemur að tölvumatinu. Helgi hefur hinsvegar meiri reynslu í þessum stöðum og það tók sinn toll á klukkunni hjá Ingvari og aftur lenti Ingvar í taktík um leið og hann missti þráðinn.

Síðasti leikur hvíts 21.Dd3-f3? var óþarfa „panic“ í stöðunni. 21.Rd4 er mjög góð staða á hvítt ef hann heldur vel á sínum spöðum. Eftir gerðan leik kom 21…Rxb2! og taktíski radarinn aftur í super formi hjá Helga! Dráp á c3 er svarað með Ra4+ og svartur stendur til vinnings.

Í þriðju skákinni sýndi Helgi af hverju hann hefur oft gengið undir viðurnefninu „Veggurinn“. Allar aðgerðir Ingvars lentu á veggnum góða og ekki laust við að einvíginu hafa að mörgu leyti verið lokið andlega eftir þessa þéttu skák hjá Helga áður en haldið var í fyrsta hlé.

Ingvar fékk sinn besta séns í næstu skák. Eftir sviptingar í miðtaflinu stóð Ingvar til vinnings en „redúseraði of primitíft“ í úrvinnslunni eins og sagt var í gamla daga. Upp kom jafnteflisstaða sem Ingvar varð að reyna eitthvað í en líklegast sá Helgi aumur á Ingvari í lokin og gaf jafnteflið sem reyndar tryggði sigurinn í viðureigninni.

Lokatölurnar 3,5-0,5 kannski of harðar miðað við gang mála en miðað við gæðin hjá Helga í kvöld verður hann illviðráðanlegur fyrir hvern sem er!

Seinna einvígið var á milli Hannesar og Braga. Bragi fór betur af stað og vann með hvítu mönnunum í skák þar sem hann stóð lengst af til vinnings.

Í annarri skák kvöldsins kom fyrsta farið í handarbakið á Braga sem hefur vafalítið ítrekað nagað það í gegnum kvöldið! Bragi tefldi fína skák og yfirspilaði Hannes en missti hróksendtaflið í jafntefli. Reyndar kom stuttur kafli þar sem hróksendataflið fór úr sigri í jafntefli, aftur í sigur og aftur í jafntefli en á endanum náði Hannes jafntefli. Klaufalegt hjá Braga.

Í kjölfarið komu tvær vinningsskákir Hannesar. Í þeirri fyrri virtist Bragi missa tökin á mjög vænlegri sóknarstöðu sem var lengst af +1 eða +2 fyrir hann alveg þangað til í lokin.

Hannes minnti á sig í fjórðu skákinni, rangstæður riddari Braga á g2 reyndist á endanum hans banabiti.

Bragi sýndi mikla seiglu í fimmtu skákinni eftir þetta mótlæti. Eftir miklar sveiflur var Bragi með tapað tafl en náði einhvern veginn að halda sér gangandi í taflinu og náði á ótrúlegan hátt að komast í drottningarendatafl peði yfir þar sem hann pressaði Hannes niður á tíma. Framundan hrein úrslitaskák!

Úrslitaskákin bauð upp á ótrúlegt drama! Þegar leið á var ljóst að Bragi var að ná undirtökunum með svörtu. Hann fékk dauðfæri hér…

30…Dxc2? var í lagi en 30…Bxf2 31.Dxf2 og 31…g4! skilur hvítan eftir algjörlega varnarlausan útaf hótuninni að leika g3+ og hvítur ræður ekki við að h-línan opnist. Bragi hélt enn á öllum ásunum þar til…

Hér hefur Bragi vafalítið ætlað að leika 48…Hxh6 og svo 49…c2 og svo …d3 og svartur vinnur. Bragi ruglaðist á röðinni sem sást bersýnilega á hans viðbrögðum, lék 48…c2?? og eftir 49.h7 stendur hvítur allt í einu til vinnings, ótrúlegar senur!

Ákveðinn heppnissigur hjá Hannesi en kannski átti hann það inni að „grísa“ aðeins á Þorfinnsson fjölskylduna eftir hádramatíska viðureign á Íslandsmótinu í Netskák fyrir áramót þar sem Björn bróðir Braga sneri gjörtöpuðu tapi við gegn Hannesi.

Útsending kvöldsins

Beinar útsendingar RÍSÍ

Það er RÍSÍ sem heldur mótið í samstarfi við SÍ. Styrktaraðilar keppninnar eru Síminn, Lengjan, Collab og Ljósleiðarinn.

„Bracket“ mótsins má sjá hér að neðan:

9. janúar

  • Helgi Ólafsson – Halldór B. Halldórsson 4-0
  • Jóhann Hjartarson – Ingvar Þór Jóhannesson 2-4

26. janúar

  • Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir – Bragi Þorfinnsson 0-4
  • Helgi Áss Grétarsson – Hannes Hlífar Stefánsson 0-4
  • Björn Þorfinnsson – Aleksandr Domalchuk-Jonasson 4-2

9. febrúar

  • Davíð Kjartansson – Símon Þórhallsson 3-4
  • Hilmir Freyr Heimisson – Dagur Ragnarsson 3,5-2,5
  • Guðmundur Kjartansson – Vignir Vatnar Stefánsson 1-4

Átta manna úrslit fara fram 9. og 16. mars. Teflt verður á hverjum sunnudegi þar til mótinu lýkur 6. apríl með úrslitum.

Í átta manna úrslitum mætast:

9. mars

  • Bragi Þorfinnsson – Hannes Hlífar Stefánsson 2,5-3,5
  • Helgi Ólafsson – Ingvar Þór Jóhannesson 3,5-0,5

16. mars

  • Aleksandr – Hilmir
  • Vignir – Símon
- Auglýsing -