Undankeppni fyrir Síminn Invitational netmótið fór fram í kvöld. Síminn Invitational er með mjög svipuðu sniði og Íslandsmótið í Netskák sem fram fór fyrir áramót. 16 keppendur tefla útslátt þar til við fáum sigurvegara.
Undanmótið í kvöld á chess.com var æsispennandi. Fimm sæti voru í boði og réðist ekki fyrr en í lokaumferðinni hvernig þau röðuðust.
Ingvar Þór Jóhannesson, Símon Þórhallsson og Dagur Ragnarsson fóru allir vel af stað og leiddu mótið lengst af. Ingvar gaf aðeins eftir undir lokin og slapp með skrekkinn í lokaumferðinni þar sem hann lék unnu tafli niður í tap gegn Markúsi Orra Óskarssyni en náði grísa sig til baka og hanga í topp 5. Halldór B. Halldórsson og Davíð Kjartansson náðu einnig inn í topp 5.
Lokastaðan og sæti í úrslitum eru að sjálfsögðu háð skönnun Chess.com á skákum í gegnum Fairplay kerfi chess.com.
16-manna úrslit hefjast 12. janúar og verður teflt á þrjá næstu sunnudaga og svo halda 8-manna úrslit áfram í byrjun mars og mótinu lýkur loks með úrslitum 6. apríl.