FIDE-meistarinn Þorsteinn Þorsteinsson hefur farið vel á stað á EM öldunga en hann hefur unnið allar þrjár skákir sínar það sem af er móti. Þorsteinn teflir í 65+ flokknum ásamt stórmeistaranum Margeiri Péturssyni. Í 50+ flokknum teflir stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson auk Erlings Arnarsonar.
Margeir og Þröstur eru meðal stigahæstu keppenda í sínum flokkum. Margeir er númer 5 í 65+ og Þorsteinn númer 13. Í 50+ er Þröstur númer 6 í sínum flokki.
65+ flokkur
Mótið hófst um helgina og þriðja umferð kláraðist í dag. Þorsteinn hóf mótið á því að leggja Slóvakann Jaroslav Matejov (1974) að velli. Skákin var ekki beint. Í 2. umferð var Þorsteinn kominn í beinar útsendingar. Hann mætti FIDE-meistaranum Bengt Hammar (2106) frá Svíþjóð. Upp kom drekaafbrigði sikileyjarvarnar og Þorsteinn var klárlega sleipari á svellinu. Þorsteinn fékk sterkt val á e5 reitnum og þandi sig á kóngsvæng. Bengt réði ekki við verkefnið og fínn sigur hjá okkar manni.
Í dag hafði Þorsteinn hvítt og mætti Kósóvó-manninum Xhevat Suhogerlla (2128). Þorsteinn tefldi traust og líklega var skiptamunsfórn Kósóvans full mikil bjartsýni. Þorsteinn var öruggur í tækninni og sigldi vinningnum heim.
Sterk byrjun hjá Þorsteini sem mætir Frakkanum Eric Boulard (2192) í 4. umferðinni.
Margeir Pétursson hefur 2 vinninga í flokknum og er taplaus. Í fyrstu umferð missti hann þráðinn í vænlegu miðtafli og upp kom endatafl með mislitum biskupum og Margeir náði ekki að búa til vinningssénsa eftir það.
Margeir vann svo sigur í 2. umferð gegn Ognan Stoychev (1994) frá Búlgaríu en sú skák var ekki beint.
Í 3. umferðinni í dag sýndi Margeir mikla þrautseigju, var lengst af með tapað tafl en náði að bjarga jafntefli gegn öðrum Búlgara, Metodi Stoinev (2137).
Margeir mætir andstæðingi Þorsteins úr 3. umferðinni frá Kósóvó.
50+ flokkur
Þröstur Þórhallsson er í ágætis málum í 50+ flokknum með 2,5 vinning. Þröstur gerði jafntefli í 1. umferð með svörtu gegn Þjóðverjanum Rafael Muedder (2056). Jafntefli var samið í jafnteflislegu endatafli, Þröstur tók enga sénsa.
Í 2. umferð var Þröstur ekki beint og vann Hollendinginn Ludo Tolhuizen (1992). Í þriðju umferð í dag hafði Þröstur svart gegn Austurríkismanninum Gerald Leitner (2124). Þröstur gjörsamlega yfirspilaði andstæðing sinn í miðtaflinu.
Þröstur hefur hvítt í 4. umferð gegn stórmeistaranum Nenad Fercec (2362) frá Króatíu.
Erlingur Arnarson hefur ekki komist á blað enn.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results (50+)
- Beinar útsendingar (50+) | Chess.com | lichess.org
- Chess-Results (65+)
- Beinar útsendingar (65+) | Chess.com | lichess.org