Jólaskákmót grunnskóla Reykjavíkur var haldið í húsnæði TR að Faxafeni 12 sunnudaginn 14. desember síðastliðinn. Mótið er sem fyrr samstarfsverkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Taflfélags Reykjavíkur. Mótinu var skipt í þrjá flokka; 1.-3. bekkur, 4.-7. bekkur og 8.-10. bekkur.
Tefldar voru 6 umferðir með umhugsunartímanum 5 mínútur fyrir hverja skák og bætast 3 sekúndur við eftir hvern leik (5+3).
Yngsta stig – 1.-3. bekkur.

Rimaskóli var eins og svo oft áður sterkastur í yngsta flokknum og fengu 19 vinninga, 3 vinningum meira en næsta sveit. Baráttan um pallinn var hörð, Vesturbæjarskóli hafði betur gegn Landakotsskóla (3. sæti) og Langholtsskóla (4. sæti) í harðri baráttu um annað sætið. Efsta b-sveitin var sveit Langholtsskóla.
Miðstig – 4.-7. bekkur.

Rimaskóli var lang bestur á miðsstiginu. Allar viðureignir unnust og 22 vinningar komu í hús af 24 mögulegum. Ártúnsskóli var í öðru sæti og Langholtsskóli tók 3. sætið.
Efsta b-sveitin var sveit Rimaskóla.
Efsta stig – 8.-10. bekkur.

Réttarholtsskóli varð hlutskarpastur á efsta stigi, unnu allar sínar viðureignir og enduðu með 19,5 vinning. Rimaskóli lenti í 2. sæti og missti af „alslemmunni“ og loks var Fellaskóli rétt á undan Landakotsskóla á oddastigum. Efsta b-sveitin var sveit Réttarholtsskóla.















