Í dag hófst alþjóðlegt mót í borginni Porto í Portúgal, Leca Chess Open 2023. Íslenskir þátttakendur á mótinu eru: GM Vignir Vatnar Stefánsson (2487), GM Helgi Áss Grétarsson (2475) og fyrrum Reykjavíkumeistarinn Stefán Bergsson (2169).
Vignir er númer 6 í styrkleikaröð, Helgi Áss númer 7 og Stefán Bergsson númer 38. Alls er 171 skákmaður skráður til leiks á mótið. Aleksandr Domalchuk-Jonasson ætlaði að taka þátt á mótinu en er ennþá að jafna sig eftir veikindin sem hann lenti í.
Í fyrstu umferð tefldu okkar men allir niður fyrir sig. Vignir mætti Portúgala með langt nafn, Hugo Miguel Da Costa Ferreira (2096). Foreldrar Hugo voru með valkvíða og ákváðu að henda bara öllum algengustu portúgölsku nöfnunum í nafnið hans!
Vignir lenti ekki í miklu vandræðum. Okkar maður hafði svart og tefldi byrjunina bara traust. Vignir fékk parið og fína dýnamíska sénsa. Snemma í miðtaflinu gerði Portúgalinn sælm taktísk mistök og svartur fékk valdað frípeð á g-línunni. Kolunnið og ekkert vesen fyrir Vigni.
Helgi Áss teflir á borði fyrir neðan Vigni og þeir munu vonandi fylgjast að megnið af mótinu. Helgi mætti indverska kvenstórmeistaranum Mounika Akshaya Bommini (2094). Helgi mætir sjóðheitur til leiks af Czech Open þar sem hann var hársbreidd frá því að næla sér í flottan titil.
Skákin varð svona týpísk „Helga Áss skák“. Hvítur fékk ekkert mikið úr byrjuninni og í miðtaflinu voru miklar tilfæringar, biskuparnir t.d. látnir lúra á a1 og b1. Allt í einu í miðtaflinu lætur Helgi til skarar skríða og fyrr en varir er hann með þrjá létta menn fyrir hrók og alla stöðuna. Svartur gjörsamlega molnaði niður fáeinum leikjum síðar.
Stefán var ekki í beinni útsendingu að þessu sinni en 32 efstu borðin eru beint. Stefán mætti portúgölskum andstæðing Andre Torres Azinheira (1806). Andstæðingur Stefáns varðist vel og vann sér inn jafnteflið.
Á morgun, 1. ágúst er tvöföld umferð. Umferðirnir hefjast 09:00 og 16:00 að íslenskum tíma, tenglar á beinar útsendingar hér að neðan.
- Chess-Results
- Beinar útsendingar (lichess)
- Beinar útsendingar (chess.com)
- Heimasíða mótsins













