Það var ekkert sem benti til þess að Magnús Carlsen myndi tapa þessari skák sem fór fram undir lok Ólympíumótsins í Búdapest. Hann fékk örlítið betra tafl út úr byrjuninni gegn 1. borðsmanni Slóvena og þar sem leiktækni hans í áþekkum stöðum er talin frábær var ekki von á öðru en að erfiðir tímar væru í vændum hjá Fedoseev. En nokkur feilspor, í 27., 29. og 32. leik, breyttu öllu og skyndilega lágu vinningsmöguleikarnir hjá Fedoseev, sem gat gert út um taflið eftir stærsta afleikinn í 29. leik, en áttaði sig ekki á möguleikum stöðunnar. Hann hélt þó vel á spöðunum í framhaldinu og eftir 55 leiki lagði Norðmaðurinn niður vopnin og var gjörsamlega miður sín er hann gekk út úr skáksalnum.
Það má líkja þessu tapi við ýmsar frægar skákir Ólympíumótanna; Tal nýbakaður heimsmeistari tapaði fyrir Penrose í Leipzig 1960, Fischer tapaði fyrir Gheorghiu í Havana 1966 og Petrosjan tapaði sinni einu skák á Ólympíumótinu í Skopje 1972 fyrir Robert Hübner og kenndi skákklukkunni um. Lítum á viðureignina:
Ólympíumótið í Búdapest 2024; 9. umferð:
Magnús Carlsen – Vladimir Fedoseev
Drottningarbragð
1. d4 d5 2. Rf3 c5 3. c4 cxd4 4. cxd5 Rf6 5. Rxd4 Rxd5 6. e4 Rf6 7. Bb5+ Bd7 8. Rc3 e5 9. Bxd7+ Dxd7 10. Rf5 Dxd1+ 11. Kxd1 Rc6 12. Bg5 Rg4 13. Ke2 f6 14. Bh4 h5 15. f3 Rh6 16. Bf2 Rxf5 17. exf5 O-O-O 18. Hhd1 Hxd1 19. Hxd1 h4 20. Kd3 Hh5 21. Ke4 Hg5 22. Hg1 g6 23. Bxh4 gxf5+ 24. Kd5 Hg6 25. Ke6 Bc5 26. Hh1 Rd4+
Eftir fremur tíðindalitla byrjun átti Magnús tvo kosti, að hörfa eða halda með kónginn lengra inn fyrir víglínuna.
27. Kd5??
Afleikur. Með því að leika 27. Kf7! hefði hvítur haldið vinningsmöguleikum, t.d. 27. … Hxg2 28. Bxf6 Rxf3 29. h4! og frípeðið er stórhættulegt.
27. … b6 28. f4 Kd7 29. g4?
Annar slakur leikur sem Fedoseev gat notfært sér með því að leika 29. … Rc2! sem vinnur, t.d. 30. gxf5 Hg4! 31. Bxf6 Hxf4 32. Bg5 Re3+ 33. Kxe5 Hxf5+ og vinnur mann.
29. … fxg4? 30. fxe5 fxe5 31. Re4 Rf3 32. Rxc5+ bxc5 33. Bg3 Hd6+ 34. Kxc5 Hd2 35. Hc1 Ke6 36. Hc4 Kf5 37. Ha4 Rxh2 38. Bxh2 Hxh2 39. Hxa7 Hxb2 40. a4 Hc2+ 41. Kb5 g3
Þetta hróksendatafl er unnið á svart. Svörtu peðin eru komin lengra og það ræður úrslitum.
42. Hg7 Kf4 43. a5 Hb2+ 44. Kc6 Ha2 45. Kb6 e4 46. a6 e3 47. Hf7+ Ke4 48. He7 Kf3 49. Hf7+ Kg2 50. a7 e2 51. He7
Það var ekki öllum ljóst hvernig Fedoseev ætlaði að vinna þessa stöðu. En hann fann leið sem snerist um að láta kónginn „fela“ sig á bak við hvíta kónginn á b6.
51. … Kf2 52. Hf7+ Ke3 53. He7+ Kd2 54. Hd7+ Kc1 55. Hc7+ Kb1!
– og hvítur gafst upp.
Bárður Örn vann Haustmót TR
Bárður Örn Birkisson bar sigur úr býtum á vel skipuðu Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur sem lauk á dögunum. Teflt var í þremur flokkum og voru keppendur tíu talsins í A-riðli og tefldu allir við alla. Bárður hlaut 7½ vinning af 9 mögulegum. Í 2. sæti kom bróðir hans, Björn Hólm Birkisson, sem hlaut 7 vinninga og í 3. sæti varð Sigurbjörn Björnsson með 6½ vinning.
Í B-riðli sigraði hinn 13 ára gamli Jósef Omarsson með glæsilegu vinningshlutfalli, hlaut 8½ vinning af 9 mögulegum og varð 3½ vinningi fyrir ofan næstu menn. Í opna flokknum bar svo sigur úr býtum Óttar Örn Bergmann Sigfússon, sem hlaut 8 vinninga af 9 mögulegum.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 5. október 2024














