Laugardaginn 4. janúar kl. 14.00 mun Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands og margfaldur Íslandsmeistari kvenna í skák, halda sérstakt erindi í sal Taflfélags Reykjavíkur fyrir skákáhugamenn og aðra góða gesti um jákvæðar leiðir til að takast á við lífið á nýju ári. Guðfríður Lilja mun meðal annars vísa í lögmál skáklistarinnar á þeirri vegferð að tileinka sér betra líf. Öll velkomin!
Hvað kemur til?
„Mig langar einfaldlega til að þakka skáklistinni og skákmönnum- og konum fyrir þau auðæfi sem við sem skáksamfélag búum að“ segir Guðfríður Lilja. „Fólk þarf ekki að vera öflugt í skák til að sjá aðdráttaraflið og gleðina sem felst í því að tefla, og við getum öll talað fyrir gildi þeirra lögmála sem skákin miðlar. Erindið er stuttur þakkaróður til skáklistarinnar með heimspekilegu ívafi og hugleiðingum um hvernig við viljum lifa lífinu. Núna á laugardaginn getum við hugleitt þetta saman, en ég og bræður mínir ólumst einmitt upp við skákæfingar í TR klukkan tvö á laugardögum!“
Guðfríður Lilja hefur verið búsett í Frakklandi í nær 13 ár og hefur stutta viðkomu hérlendis en hefur greinilega ekki gleymt rótum sínum á Íslandi.















