Alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson hefur lokið leik á alþjóðlega mótinu á eyjunni Djerba í Túnis, Djerba Open. Við skildum við Björn þegar sjötta umferð var framundan á tvöföldum degi. Rennum yfir hvernig mótið kláraðist hjá Birni!
Í sjöttu umferð fékk hann kanadíska stórmeistarann Batur Sambuev með svörtu. Björn þekkti byrjunina ekki nægjanlega vel og lenti í vandræðum. Batur stóð mun betur en Björn þráaðist við og náði í raun að gera skákina nokkuð spennandi miðað við hvernig hún hófst. Sambuev þurfti að hafa mikið fyrir hlutunum með drottningu fyrir hrók og mann og tæknilegi hlutinn alls ekkert auðveldur.
Smá svekkjandi tap hjá Bjössa en fínn karakter eftir erfiða byrjun með svörtu gegn grjóthörðum andstæðing.
Hér var á ferðinni tvöfaldur dagur og var skákin við Batur fyrri skákin en Björn kvittaði fyrir með sigri á heimamanninum Ahmed Bouzidi í seinni skákinni og rétti úr kútnum.
Í áttundu umferð tapaði Björn lykilskák upp á toppbaráttuna að gera gegn alþjóðlegum meistara. Skákin var mikil baráttuskák en þegar Björn missti tök á f5 reitnum í endataflinu virtust örlög hans innsigluð og hann varð að lúta í dúk.
Björn kláraði svo mótið snemma í dag með jafntefli með hvítu mönnunum gegn sterkum CM. Björn hafði fína sénsa lengst af með biskupaparið en fann ekki nógu sterkt framhald til að setja svartan í vanda í endataflinu og varð að sætta sig við jafntefli á endanum.
Niðurstaðan varð sjötta sæti og komst þokkalega frá því. Stórmeistararnir Velten og Sambuev voru í sérflokki með 7,5 vinning.

Björn lét vel að mótinu og aðstæðum og ekki loku fyrir það skotið að mótshaldarar geti boðið Íslendingum góða „díla“ á sama móti að ári!














