Alþjóðlegi meistarinn Dagur Ragnarsson hefur verið einstaklega farsæll þegar kemur að því að sanka að sér verðlaunum á mótaröð VignirVatnar.is og Snooker og pool-stofunnar. Febrúar-mótið í þessari skemmtilegu mótaröð var engin undantekning á því!
Mótið var haldið laugardaginn 22. febrúar klukkan 18:00 og tefldar voru 9 umferðir með tímamörkunum 3+2. Enn og aftur voru glæsileg verðlaun í boði Snooker- og pool-stofunnar, alls voru heildarverðlaun 150.000 kr!
Verðlaun voru veitt fyrir efstu þrjú efstu sætin sem endanær auk þess sem aukaverðlaun voru veitt í flokkunum:
-
U-2000 ELO
-
U-1800 ELO
-
Stigalaus
30 manns mættu til leiks og enduðu leikar þannig að Vignir Vatnar varð hlutskarpastur í eigin móti enn og aftur. Vignir hlaut 8,5 vinning og missti aðeins niður eitt jafntefli og það var gegn Arnari Milutin Heiðarssyni sem var svo æstu í að tefla að hann kom beint af Keflavíkurflugvelli og missti af þremur fyrstu umferðunum, gaf þá vinninga, en náði samt að tefla við Vigni í lokaumferðinni og taka af honum eina jafnteflið!


Verðlaun stigalausra komu í hlut Ívans Guðjóns Baldurssonar sem hlaut 4,5 vinning, sérdeilis prýðilegur árangur þar á ferð! Ívan ætti að hljóta ágætis hraðskákstig fyrir þennan árangur!
Bestur í U1800 reyndist Arnar Ingi Njarðarson, einn aktífasti skákmaður landsins þegar kemur að at- og hraðskákum!

Annar sem er duglegur að tefla tók U2000 verðlaunin en það var Kristján Örn Elíasson með sérdeilis prýðilegri frammistöðu!

Aðalverðlaun utan Vignis fóru svo:
3. verðlaun hlaut Ólafur B. Þórsson
2. verðlaun hlaut Aleksandr Domalchuk-Jonasson

- verðlaun hlaut Dagur Ragnarsson
Mótshald gekk vel hjá VignirVatnar.is, Ingvar Þór sá um skákstjórn og Snooker og Poolstofan fær þakkir fyrir aðstöðu, sérdeilis prýðilega gestrisni og frábær verðlaun!
Sjáumst aftur í mars!
















