Hraðskákmót taflfélaga 2025 var haldið miðvikudagskvöldið 19. febrúar sl. Líkt og í fyrra fór mótið fram í Hlöðunni við Gufunesbæ. Þátttökufjöldi var takmarkaður við 14 skáksveitir, A og B. Skráningin gekk vel og var lokið nokkrum dögum fyrir mót. Tvö taflfélög drógu þátttöku sína til baka rétt fyrir mótið en á móti kom að C sveit TR öðlaðist þátttökurétt.
Þetta hraðskákkvöld reyndist kvöld TR-inganna því að þeirra sveitir A og B stóðu uppi sem sigurvegarar A og B sveita.
Teflt var frá kl. 19:00 alls níu umferðir. A sveitir frá níu félögum og fjórar B sveitir tókust á við tímamörkin 4+2. Í þriðju umferð mættust A sveitir Fjölnis og TR, viðureign sem TR-ingar unnu 4-2. Þessi úrslit reyndust þegar upp var staðið afgerandi fyrir lokastöðuna og sigur TR A á mótinu. TR í 1. sæti með 43 vinninga og 17 stig. Fjölnir A með 41,5 vinninga og 16 stig – turnarnir tveir á mótinu.
Þriðja sæti hraðskákmótsins hlaut A sveit Breiðabliks með 35 vinninga. Blikarnir náðu jafntefli við TR en töpuðu fyrir Fjölni 4 – 2. Í 4. sæti verðskuldað lenti B sveit TR og lönduðu um leið B sveita bikarnum.
Hraðskákmót taflfélaga á einu kvöldi, allt frá árinu 2017 hefur reynst eitt skemmtilegasta skákmót ársins enda ekkert alltof mikið um liðakeppnir í mótaáætluninni. Mótinu lauk á þremur klukkustundum með skákhléi meðtöldu. Það fór vel um þátttakendur í Hlöðunni bæði við taflborðin og uppi á lofti þar sem boðið var upp á veitingar og setustofu.
Páll Sigurðsson var skákstjóri og Helgi Árnason formaður Skákdeildar Fjölnis mótsstjóri en allt skipulag og umsjón keppninnar var á herðum skákdeildarinnar.
Hraðskákmót taflfélaga – Sigurvegarar eftir nýtt fyrirkomulag.
2025  TR
2024  Víkingaklúbburinn
2023  Víkingaklúbburinn
2020, 2021 og 2022 Covid – ár
2019  TR
2018  Huginn
2017  TR
- Auglýsing -