FIDE meistarinn Bárður Örn Birkisson virðist vera búinn að tefla sig í form á Ítalíu. Bárður er taplaus eftir fimm umferðir á seinna móti hans og Björns Hólm Birkissonar á Ítalíu en áður höfðu þeir teflt á Opna Spilimbergo-mótinu.
Tvíburarnir byrjuðu báðir með 1,5 vinning af 2 og gerðu jafntefli við titilhafa strax í 2. umferð. Síðan þá er Bárður taplaus en eilítið erfiður kafli hjá Birni.
Í 3. umferð gerði Bárður aftur jafntefli við sterkan titilhafa. Bárður hafði svart og komst vandræðalaust úr byrjuninni og var e.t.v. með örlítið betra og Bettalli tók þráteflinu fagnandi.
Björn tapaði á sama tíma gegn ítölskum stórmeistara, stöðuleg pressa stórmeistarans kostaði á endanum of mikla orku í vörninni og peð tapaðist í endataflinu.
Í 4. umferð gerði Bárður aftur jafntefli með svörtu en ekki vantaði mikið upp á til að landa sigri. Bárður var peði yfir í endatafli en öll peðin á sama væng og hvítur náði að halda.
Björn missti þráðinn í miðtaflinu í sinni skák og stöðunni hrakaði hratt eftir að peð fór í hafið, Björn þurfti að lúta í dúk.
Í 5. umferð í gær kom sigur gegn WCM hjá Bárði. Bárður var betri í miðtaflinu og vélaði mann af andstæðingi sínum.
Björn mætti einnig kvenkyns skákmanni, WIM frá Kosta Ríka. Skákin fjaraði út í jafntefli eftir að Björn nýtti ekki örlitla sénsa sem hann fékk í miðtaflinu.
Sjötta umferð er tefld í dag og þar hefur Bárður svart gegn stórmeistaranum Yago Santiago (2488). Björn hefur svart gegn stigalægri indverskum skákmanni.


















