Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson gerði jafntefli við alþjóðlega meistarann Hjörvar Stein Grétarsson í níundu og næstsíðustu umferð Íslandsmótsins í skák sem fram fór í kvöld. Hannes hefur vinningsforskot á bræðurna Björn og Braga Þorfinnssyni fyrir lokaumferðina sem fram fer á morgun og dugar jafntefli til að tryggja sér sinn tólfta Íslandsmeistaratitiil.

Björn gerði jafntefli við Héðin í kvöld eftir að hafa lent í erfiðleikum eftir glannalega taflmennsku en Bragi vann Guðmund Kjartansson.

Hannes mætir Héðni Steingrímssyni í fyrramálið en lokaumferðin hefst mun fyrr en venjulega eða 11. Bræðurnir mætast svo í hinni toppviðureign dagsins þar sem sigurvegarinn gæti hugsanlega náð einvígi um Íslandsmeistaratitilinn við Hannes.

Á Íslandsmóti kvenna sem er hluti af Íslandsmótinu er einnig mikil spenna. Þar eru þær Lenka Ptácníková, sem vann Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur, og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, sem lagði alþjóðlega meistarann Sævar Bjarnason að velli efstar með 5,5 vinning. Í lokaumferðinni teflir Lenka við Jón Þór Bergþórsson en Jóhanna við Sigurð Pál Steindórsson.

Sem fyrr var nokkuð um óvænt úrslit. Ungu ljónin Hilmir Freyr Heimisson og Vignir Vatnar Stefánsson gerðu báðir jafntefli við mun stigahærri andstæðinga. Baldur Teodór Petersson vann landsliðskonuna Tinnu Kristínu Finnbogadóttur og Felix Steinþórsson sigraði Atla Jóhann Leósson en þar er stigamunurinn um 300 skákstig.