Íslandsmótið í skák 2018 – minningarmót um Hemma Gunn- virðist vera mót áhugamannanna. Tveir slíkir, þótt stórmeistarar séu, eru efstir og jafnir með 6 vinninga eftir sjö umferðir. Það eru félagarnir Helgi Áss Grétarsson (2460) og Þröstur Þórhallsson (2416). Helgi Áss vann í kvöld, stórmeistarabanann, Vigni Vatnar Stefánsson (2284), en Þröstur lagði, Íslandsmeistarann tólffalda, Hannes Hlífar Stefánsson (2541). Þröstur varð Íslandsmeistari árið 2014 en Helgi hefur aldrei hampað Íslandsmeistaratitlinum

Lenka Ptácníková (2230) er í þriðja sæti með 5½ vinning. Lenka er jafnframt langefst í baráttunni um Íslandsmeistaratitil kvenna.

Úrslit sjöundu umferðar má finna á Chess-Results.

Hannes er í 4.-7. sæti með 5 vinninga ásamt nýjasta stórmeistara okkar Íslendinga, Braga Þorfinnssyni (2445), alþjóðlega meistaranum Jóni Viktori Gunnarssyni (2472) og FIDE-meistaranum Sigurbirni Björnssyni. Héðinn Steingrímsson (2583), stigahæsti skákmaður landsins, er meðal þeirra sem hafa 4½ í skiptu áttunda sæti.

Stöðuna má finna á Chess-Results.

Helgi Áss mætir Lenku á morgun en Þröstur teflir við Jón Viktor. Á þriðja borði er stórmeistaraslagur Braga og Hannesar. Sigurbjörn mætir Héðni.

Pörun áttundu umferðar má finna á Chess-Results.

Röð efstu manna í verðlaunaflokkum:

Íslandsmót kvenna

 1. Lenka Ptácníková 5½ v.
 2. Guðlaug Þorsteinsdóttir 4 v.
 3. Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir 3 v.

Unglingameistaramót Íslands (u22)

 1. Vignir Vatnar Stefánsson 4½ v.
 2. Gauti Páll Jónsson 4 v.
 3. Birkir Ísak Jóhannsson 4 v.

Besti stigaárangur miðað við eigin skákstig (+2000)

 1. Helgi Áss Grétarsson (+195)
 2. Lenka Ptácníková (+171)
 3. Þröstur Þórhallsson (+155)
 4. Jóhann Ingvason (+115)

Besti stigaárangur miðað við eigin skákstig (-2000)

 1. Birkir Ísak Jóhannsson (+313)
 2. Benedikt Briem (+291)
 3. Hörður Jónasson (+272)
 4. Arnar Heiðarsson (+252)
 5. Hörður Garðarsson (+248)
 6. Þórður Guðmundsson (+245)

Langflestar skákir morgundagsins verða sýndar beint á vefsíðu mótsins.

Fyrir þá sem eru með snjallsíma og vilja fylgjast með mælir ritstjóri með forritunum (öppunum) Follow Chess og Chess24. Best er þó að mæta á skákstað og drekka í sig stemminguna þar. Frítt kaffi á könnunni og tilvalið að skoða minningarvegginn um Hemma Gunn.