Mynd: ESE

Brynleifur Sigurjónsson, bifreiðastjóri, elsti virki skákmaður landsins, sem fagnaði 100 ára afmæli fyrir nokkru, lést þann 24. júní sl. og var útför hans gerð í dag.

Þessi aldni höfðingi og bóndasonur frá Geldingaholti í Skagafirði var fæddur 20. desember 1917, á dögum fyrri heimstyrjaldarinnar, og hefur því marga fjöruna sopið á lífsleiðinni. Hann var kvæntur Öldu Gísladóttur sem lést 2011. Þau bjuggu alla sína búskapartíð í Reykjavík. Hann dvaldist síðustu árin að hjúkrunarheimilinu Skjóli.  Brynleifur starfaði lengst af sem langferða og vörubílstjóri.

Skákin hefur þó verið hans líf og yndi alla tíð. Alveg fram til þess síðasta tefldi hann reglulega við félaga sinn Jónas Kr. Jónsson, nokkrum árum yngri sér til heilsubótar og yndisauka.

Þar til fyrir þremur árum mætti hann nokkrum sinnum á vetri til tafls í skákklúbbi Félags eldri borgara í Reykjavík, að Ásgarði í Stangarhyl, kom þá jafnan keyrandi sjálfur. Stóð sig vel og vann yfirleitt helming skáka sinna. Enda hafði hann það orð á sér að vera afar yfirvegaður skákmaður og erfiður andstæðingur, en þó hvers manns hugljúfi.

Lengst af tefldi hann þó í hópi félaga sinni á Hreyfli eftir að gerðist leigubílstjóri upp úr miðri síðustu öld. Brynleifur var einn af stofnendum þess taflfélags og tefldi með Hreyfli í mörgum sveita- og firmakeppnum innanlands og utan, m.a. í keppni í NSU – Norræna sporvagna sambandinu.

Myndir: ESE

Í tilefni af 100 ára afmæli hans í desember sl. sæmdu forystumenn skákklúbba eldri borgarar hann gullpeningi með merki Skáksambandsins í heiðurs og þakklætisskyni fyrir tryggð hans við skákgyðjuna.

Blessuð sé minning þessa mæta manns og skákunnanda.

- Auglýsing -