Mynd: Chessbase: https://en.chessbase.com/post/fide-presidential-race-2018-tickets

Framboðsfrestur til FIDE rann út í fyrradag, þremur mánuðum fyrir kosningarnar sem fram fara samhliða Ólympíuskákmótinu í Batumi þann 3. október nk.

Fátt kom á óvart í tilkynningu FIDE í gær um væntanlega framboð. Frambjóðendurnir eru þrír: Grikkinn, Georgios Makropoulos, starfandi forseti FIDE, enski stórmeistarinn, Nigel Short og Rússinn Arkady Dvorkovich, fyrrum aðstoðarforsætisráðherra Rússlands. Enginn Kirsan Ilyumzhinov sem dró nýlega framboð sitt til baka.

Línur farnar að skýrast?

Það sem kemur mest á óvart er fjöldi tilnefninga á bakvið hvert framboð. Sex skáksambönd tilnefna Short, 13 tilnefna Dvorkovich en 64 tilnefna Makropoulos. Til samanburðar tilnefndu 20, þar með talið Ísland, Garry Kasparov árið 2014 og 56 Ilyumzhinov. Sá síðarnefndi vann öruggan sigur. Hlaut um 2/3 atkvæða.

Fjöldi skáksambanda sem hefur atkvæðisrétt er 189. 90 atkvæði duga þar með því til sigurs. Fái engin meirihluta í fyrstu kosningu verður kosið aftur.

Nú þarf fjöldi skáksambanda sem tilnefna framboð ekki að þýða endilega stuðning eins og t.d. Short hefur bent á.

Short er með tilnefningar eingöngu frá þeim samböndum sem eiga mann á hans framboðslista en hefði væntanlega getað útvegað fleiri. Hann getur þó ekki gengið að stuðningi eigin skáksambands sem vísum eins og sjá má á tilkynningu á heimasíðu enska skáksambandsins frá 15. júní sl.

At its Board meeting on 15th June, the Board nominated Nigel Short’s presidential ticket for the FIDE election in October. Regardless of its nomination, the Board will remain open-minded as to how the ECF’s vote is exercised in October.

Það flækir mjög málin fyrir Englendinga að Malcolm Pein, mótshaldari London Chess Classic, sem hefur á sér afar gott orð, er varaforsetaefni Makropoulos.

Af 64 tilnefningum Makropoulos eru 18 þeirra frá Evrópu en þar eru atkvæðin alls 54. Hann virðist samkvæmt þessu hafa þegar um þriðjung atkvæða Evrópu.

Ekkert Norðurlandanna tilnefnir frambjóðenda nema það finnska sem tilnefnir Nigel Short. Á framboðslista hans er Panu Laine, fyrrverandi forseti finnska skáksambandsins. Hin norrænu skáksamböndin halda að sér höndum og vilja væntanlega bíða fundar með forsetaframbjóðendum sem fram fer á Helsingjaeyri þann 28. júlí nk.  Þangað hafa bæði Makropoulos og Short boðað komu sína en svar frá Dvorkovich hefur ekki borist.

— Rétt er að banda á afar góða fréttaskýringu á Chessbase. 

Sjálfkjörið hjá ECU – fjármálaráðherra Lettlands í næstu stjórn

Aðeins eitt framboð kom fram í Skáksambandi Evrópu. Georgíski stórmeistarinn,  Zurab Azmaiparashvili,  er því sjálfkjörinn forseti ECU næstu fjögur árin.  Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, verður varaforseti ECU. Í næstu stjórn ECU tekur sæti Dana Reizniece-Ozola, stórmeistari kvenna og fjármálaráðherra Lettlands.

— Nánar á heimasíðu ECU.

Fyrri fréttir Skák.is um baráttuna í FIDE
- Auglýsing -