Frá sjöttu og næstsíðustu umferð Meistaramóts Hugins. Mynd: VÓV

Sjötta og næst síðasta umferðin í Meistaramóti Hugins var tefld síðastliðið mánudagskvöld. Eftir frekar stuttar skákir í umferðinni á undan tóku skákmenn til við löngu skákirnar aftur jafnt hinir stigahærri sem þeir stigalægri og var ekkert gefið eftir hver sem var stigamunurinn. Í mótinu hafa hingað til verið margar athyglisverðar og ágætlega tefldar skákir jafnt á efri sem neðri borðum.

Á fyrsta borði gerðu Gauti Páll Jónsson og Kristján Eðvarðsson jafntefli í skák þar Gauti Páll var nær sigri með peði meira í endatafli en rataði ekki rétta leið til sigurs í endataflinu. Á öðru borði stýrði Vignir Vatnar Stefánsson hvítu mönnunum til sigurs gegn Björgvini Víglundssyni. Eftir rólega byrjun er Vignir Vatnar komin á topinn með Gauta Páli sem hefur dvalið þar allt mótið. Þeir hafa báðir 5v en næstur kemur Kristján með 4,5v og geta ekki aðrir unnið mótið úr þessu. Á þriðja borði vann Óskar Víkingur Davíðsson Pál Þórsson með sikileyjarvörn. Óskar stendur vel að vígi í baráttunni um unglingaverðlaunin og er með í baráttunni um stigaverðlaunin þótt þar sé meiri samkeppni. Á fjórða borði lagði Ingólfur Gíslason Ögmund Kristinsson með vandaðri taflmennsku. Ingólfur er nú þegar búinn að tryggja sér verðlaun stigalausra nema hann taki fyrr önnur verðlaun. Á fimmta borði vann Vigfús Vigfússon Óskar Long Einarsson eftir þæfingssama skák, sem Óskar tefldi vel en lét glepjast af girnilegum hrók og ógæfan dundi yfir hann.

Í lokaumferðinni tefla Gauti Páll og Vignir Vatnar til úrslita. Kristján mætir Ingólfi og verður að  sækja sigur og bíða á sama tíma átekta eftir úrslitum á fyrsta borði. Síðasta umferðin fer fram næstkomandi mánudagskvöld 15. október og hefst kl. 19.30.

Úrslit 6. umferðar í chess-results.

Pörun 7. umferðar í chess-results.

Af heimasíðu Hugins.

- Auglýsing -