ÆSIR – Skákdeild félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni fagnaði nýlega 20 ára afmæli sínu með glæsilegu afmælismóti og veislufagnaði.

Frumkvöðull að stofnun hennar og formaður fyrstu 2 árin var Sigurður Pálsson, en síðan tók Birgir Sigurðsson við leiddi skákstarfið árum sama, eða þar til hann féll frá. Þá tók Þorsteinn Guðlaugsson við keflinu til dauðadags, en núverandi formaður er Garðar Guðmundsson, en með honum i stjórn þeir Finnur Kr. Finnsson, sem verið hefur gjaldkeri nánast frá upphafi, Jónas Ástráðsson og Viðar Arthúrsson.

Góður stígandi og vaxandandi þátttaka hefur verið í starfseminni síðustu árin, iðulega um og yfir 30 þátttakendur í vikulegum þriðjudagsmótum klúbbsins. Sumir þeirra Riddarar eða Korpúlfar inn við beinið sem sækja mót í öllum skákklúbbum eldri borgara eftir því sem best hentar.  Reyndar verður RIDDARINN einnig tvítugur á þessu ári og mun fagna því með afmælismóti í desember.  Þá hefur það ekki farið fram hjá neinum að HRÓKURINN hélt veglega upp á 20 ára afmæli sitt nýlega og svo mun SKÁKDEILD KR fagna 20 ára afmæli næsta ár.  Greinilegt er að í lok síðustu aldar hefur dularfull og myndarleg skákbylgja gengið yfir sem vert er gleðjast yfir nú þegar litið er um öxl.

Það sem af er skáktíð vetrarins hafa þeir Björgvin Víglundsson og Guðfinnur R. Kjartansson unnið 3 mót hvor, sá síðarnefndi reyndar í fjarveru hins fyrrnefnda. Guðfinnur stóð uppi sem Hrókur ársins sl. vetur með flesta vinninga.   Þór Valtýsson og Ari Stefánson hafa unnið sitt hvort mótið.  Glæstur sigurvegari afmælismótsins varð hins vegar Ólafur Kristjánsson, hinn kunni skákmaður að norðan, sem nú er fluttur suður.  Öll úrslit eru birt á Feisbúkk síðu klúbbsins, sem og á heimasíðu hans www.aesirasg.is.

Þar lýsir Jónas afmælismótinu á þennan veg: „Æsir fóru mikinn þriðjudaginn 23. október og sem fyrr áttu sumir betri dag en aðrir. Alls settust 28 skákmenn að tafli og margar fléttur sáu ljósið. Efstur á mótinu var Ólafur Kristjánsson með 8 vinninga af 9 mögulegum, annar var Guðfinnur R. Kjartansson með 7 af jafnmörgum mögulegum og þriðji var Sæbjörn Larsen með 6,5 vinning. Menn voru missáttir með árangur sinn,  sumir áttu þokkalegan dag en aðrir síðri.“

Nánari úrslit má sjá hér að neðan og enn betur með þvi að tviklikka á töfluna.

ESE

- Auglýsing -