Sigursveit Hugins á Hraðskákkeppni taflfélaga. Mynd: PRP

Hraðskákkeppni taflfélaga fór fram í Rimaskóla á þriðja síðasta degi ársins 2018. Það var Skákdeild Fjölnis sem stóð fyrir mótinu annað árið í röð og var teflt í góðu yfirlæti í Rimaskóla. 11 sveitir tóku þátt í mótinu sem var nokkuð undir væntingum og mun Fjölnir finna mótinu betri tíma á næsta ári til að örva þátttökuna. Er horft til þess að hafa mótið í lok ágúst eða fyrri part september mánaðar á komandi ári.

En þá að mótinu sjálfu, fyrirfram mátti búast við því að Huginn a sveit, TR og Víkingaklúbburinn myndu berjast um sigurinn og eins voru a sveit Breiðabliks, Bolungarvíkur og Reykjanesbæjar (BBR) og a sveit Fjölnis líklegar til að berjast um verðlaun á mótinu.

Mótið fór vel af stað og til að byrja með var sveit BBR í forystu enda með nokkra grjótharða hraðskákmenn innan sinna raða. Gekk þeim sérlega vel á neðri þremur borðunum þar sem þeir Guðmundur Halldórsson (10,5/14), Hlíðar Þór (11,5/14) Halldór Grétar (10/14) fóru mikinn á meðan þeir Guðmundur Gíslason, Magnús Pálmi og Örn Leó Jóhannsson héldu sínu á efstu þremur borðunum. Eins var efsta sveit Íslandsmóts Skákfélaga, Skákdeild Fjölnis nokkuð spræk og með 12-0 sigri gegn Skákgenginu í 5. umferð komst sveitin í tæri við toppinn. En 7-5 tap gegn BBR í 6. umferð gerði þó fljótt út um vonir Fjölnis á frekari afrekum og fór svo að sveitin endaði í þriðja sæti mótsins.

Huginn a sveit fór rólega af stað og vann frekar nauma sigra á Víkingaklúbbnum (6,5-5,5) og Fjölni (6,5-5,5) í annarri og þriðju umferð. Þeim óx þó ásmegin í framhaldinu og unnu góða sigra gegn BBR a sveit (8,5-3,5) og SA (8,5-3,5) í næstu umferðum og komust þar með í efsta sætið og létu það ekki af hendi eftir það. Fór svo að lokum að Huginn a sveit vann öruggan sigur með 59,5 vinninga í 84 skákum. Í næstu sætum komu BBR a sveit með 54 vinninga og Fjölnir a sveit með 53 vinninga.

Mótshaldið gekk afar vel fyrir sig og þurftu skákdómararnir lítið að beita sér, fyrir utan að endurstilla nokkrar klukkur af og til, vegna ólöglegs leiks. 70 skákmenn tóku þátt í mótinu sem gerir það að einu fjölmennasta skákmóti ársins og á næsta ári er stefna sett 100 manna mót.

Sigursveit Hugins skipuðu:

  1. Helgi Ólafsson 4 v. af 4
  2. Hannes Hlífar Stefánsson 8½ af 10
  3. Helgi Áss Grétarsson 12½ v. af 14
  4. Magnús Örn Úlfarsson 11 v. af 14
  5. Andri Áss Grétarsson 8 v. 14
  6. Baldur A. Kristinsson 5½ v. af 14
  7. Atli Freyr Kristjánsson 10 v. af 14

B-sveit Hugins sigraði keppni b-liða.

Lokastaðan á Chess-Results.

- Auglýsing -