Upphaf viðureignarinnar við Serbíu

Það var átta manna hópur sem lagði af stað til Konya í Tyrklandi föstudagskvöldið 23.nóvember síðastliðinn. Tilgangur ferðarinnar var að taka þátt í ólympíumótinu í skák fyrir 16 ára og yngri. Hópinn skipuðu:

Leikmenn: Vignir Vatnar Stefánsson, Stephan Briem, Birkir Ísak Jóhannsson, Arnar Milutin Heiðarsson, Birkir Ísak Jóhannsson og Batel Goitom.

Liðsstjóri Helgi Ólafsson

Foreldrar: Kjartan Briem og Goitom.

Fyrirfram vorum við nokkuð bjartsýn á gengi liðsins, flestir í liðinu hafa verið í nokkuð stöðugri framför síðustu misserin og þótt meirihluti sveitanna í mótinu hafi verið mun stigahærri, (íslenska sveitin var 33. stigahæst af 47 sveitum) , þá vinna stigin ekki skákirnar og gengi Íslands oft verið ágætt á þessum mótum, svo ekki sé minnst á frækinn sigur Íslands 1995 á þessu móti.

Annað átti nú eftir að koma í ljós. Ferðin til Konya gekk nokkuð vel, við gistum í London Gatwick svo við kæmum á heilbrigðum tíma til Konya á laugardeginum og næðumst að hvílast vel fyrir sunnudaginn þar sem fyrsta umferðin fór fram.

Upphaf viðureignarinnar við Serbíu

Í fyrstu umferð mættum við mjög sterku liði Serba. Það er skemmst frá því að segja að þrátt fyrir þokkalegar skákir þá töpuðust þær allar og viðureignin því 0-4.

Sveit Mexíkó – voru vingjarnleg og fylgdust talsvert með íslensku sveitinni

 

Í annarri umferð mættum við Mexíkó. Þau reyndust sýnd veiði en ekki gefin. Vignir Vatnar vann góðan sigur, en Stephan tapaði á öðru borði eftir langa jafna skák. Birkir Ísak vann sína skák, en Arnar Milutin tapaði og viðureignin endaði því 2-2. Aðeins svekkjandi þar sem sveitin var talsvert stigalægri en okkar.

Í þriðju umferð mættum við Þýskalandi sem hafði á að skipa stigahárri sveit. Aftur lentum við á vegg eins og í fyrstu umferð og töpuðum 0-4. Ekki góð umferð . Arnar Milutin átti skástu skákina á móti andstæðing með um 300 elostig hærra en hann sjálfur, og var lengi með mun betri stöðu en glopraði henni niður í endataflinu.

Eftir þessar þrjár umferðir var hópurinn frekar langt niðri þar sem gengið hafði verið talsvert undir væntingum. Því miður tók ekki betra við í fjórðu umferð þegar við mættum Thailandi. Sú sveit var mun stigalægri en okkar , en við náðum okkur engan veginn á strik og töpuðum 1-3, Vignir og Birkir Ísak með jafntefli, meðan Stephan og Arnar töpuðu. Thailendingarnar tefldu mjög agað.

Þegar komið var í fimmtu umferð var íslenska sveitin því komin upp við vegg með aðeins 1 stig eftir 4 umferðir. Andstæðingurinn í fimmtu umferð voru Rúmenar , sem höfðu ekki fengið stig í fjórum fyrstu umferðunum. Þetta var ung sveit og stigalág og reyndist svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin. Það tók langar skákir og þétta taflmennsku að ná fram sigri 2,5 – 1,5 . Fyrsti liðssigurinn staðreynd og stemningin aðeins betri í hópnum.

6. umferðin var gegn Tyrklandi – stúlknaliði. Þær voru með nokkuð jafna sveit stigalega í kringum 1900 stigin. Þau sögðu þó lítið um styrkleika liðsins sem var mun meiri en stigin gáfu til kynna. Vel undirbúnar náðu þær að leggja íslenska liðið að velli 2,5 – 1,5. Vignir tapaði á fyrsta borði, Stephan vann á öðru borði, Birkir Ísak gerði jafntefli á þriðja borði og Arnar Milutin tapaði á fjórða borði. Þetta var lið sem við hefðum á venjulegum degi átt að ná að sigra.

Tyrkneska stúlknasveitin var sýnd veiðin en ekki gefin. Gríðaröflugar.

 

7. umferð: Kanada. Þokkalega sterk sveit stigalega en þó þannig að við ættum að eiga mjög góða möguleika. Það leit vel út, Vignir Vatnar gerði reyndar jafntefli á fyrsta borði, en Batel nældi í góðan sigur á 4.borðinu. Bæði Stephan og Birkir Ísak voru síðan lengst af með mjög góðar stöður í sínum skákum en því miður urðu þeir báðir að lúta í lægra haldi að lokum, og niðurstaðan 1,5 – 2,5 tap.

Fyrir viðureign Íslands og Kanada.

 

Í 8.umferð mættum við lið Alsír B og sigruðum 3-1 (Vignir, Stephan og Birkir Ísak með sigra).

Fyrir lokaumferðina gegn S-Afríku.

 

Í síðustu umferðinni  mættum við svo Suður-Afríku og gátum bjargað andlitinu svona stigalega séð með sigri. Það tókst þó það hafi hangið á bláþræði, því Arnar náði jafntefli eftir gríðarbaráttu í slæmri stöðu lengst af þar, og tryggði þannig 2,5 – 1,5 sigur, þar sem Birkir Ísak vann sína skák meðan Vignir og Stephan gerðu jafntefli.

Ísland endaði því með 7 stig í mótinu sem skilaði liðinu í 34.-38.sæti, og hafnaði í 38.sætinu á TB2.

Uzbekistan sigraði á mótinu, Indland lenti í öðru sæti og Kína í því þriðja.

Heilt yfir má segja að Birkir Ísak hafi staðið sig ágætlega, fékk 5 vinninga í níu skákum á þriðja borði, meðan aðrir stóðu ekki alveg undir væntingum. Okkur vantaði tilfinnanlega betri byrjun og það háði okkur síðan í gegnum mótið að enginn í hópnum komst á skrið í mótinu.  Það má þó ekki gleyma að leikmenn gáfust þó ekki upp þó byrjunin hafi verið erfið og innbyrtu mun fleiri vinninga í seinni hluta mótsins heldur en þeim fyrri.

Að mati undirritaðs var mótið gríðarlega dýrmæt reynsla. Hún kennir okkur m.a. að það er ekkert að marka elostig leikmanna í svona keppnum, allir leikmenn í mótinu eru þannig lagað séð betri en stigin gefa til kynna. Eins er greinilegt að hver einasti leikmaður í mótinu mætti í mótið í mjög góðri æfingu, öll grunnteóría vel æfð og að mæta óundirbúinn til leiks eða lenda í byrjunum sem maður þekkti ekki vel, var „fatalt“.  Þetta er gjörólíkt því að tefla á Íslandi í hefðbundnum mótum þar, þar sem tiltölulega fáir eru vel skólaðir í byrjunum og annari teoríu.  Eftir að hafa mætt á þetta mót er alveg ljóst hvert verkefnið er og hvar við stöndum, en einnig að það er hægt að ná árangri á svona móti með góðum undirbúningi.

Það er einnig ljóst að svona liðskeppnir eru talsvert ólíkar einstaklingsmótum, það skilur oft mjög lítið á milli hlátur og gráturs, sigurs og taps fyrir liðið. Með því að mæta í toppformi á svona mót hef ég trú á að íslenska sveitin í sterkustu mögulegu uppstillingu gæti orðið mjög framarlega í þessu móti að ári.

Það er mín skoðun að ef Ísland ætlar sér að eiga skáksveitir í fremstu röð í framtíðinni þá þarf Ísland að taka reglulega þátt í svona mótum og standa fyrir góðum undirbúningi, búa sér til langtímamarkmið og afreksstefnu.  Að mínu mati eigum við þokkalega góðan efnivið í árgöngum frá sirka 2001-2007 og það þarf að styðja við fagmennsku í þjálfun og undirbúningi fyrir okkar efnilegu skákmenn ætlum við okkur stóra hluti í framtíðinni.  Við eigum að stefna hátt , við eigum góða kennara og þjálfara sem eru tilbúnir að hjálpa til og mikilvæga skákhefð sem fá lönd geta stært sig af.  Til þess að ná langt þarf góðar aðstæður, rétt hugarfar og grípa þau tækifæri sem gefast til þess að bæta sig. Við höfum allar þessar forsendur sem til þarf.

Kjartan Briem

- Auglýsing -