Magnús V. Pétursson, fv. forstjóri, víðfrægur milliríkjadómari í handbolta og knattspyrnu og skákástríðumaður mikill, fagnaði 86 ára afmæli sínu á gamlársdaginn var.

Maggi Pé  eins og hann er betur þekktur hefur síðan hann varð áttræður árið 2013 haldið upp á afmæli sitt með pomp og prakt m.a. með því að bjóða góðvinum sínum og skákfélögum til skákmóts, fyrst í höfuðstöðvum Jóa Útherja í Ármúla en nú síðustu 2 árin í félagsheimili FEB,  þar sem ÆSIR, skákklúbbur eldri borgara, hefur aðsetur og teflt er grimmt alla þriðjudaga frá kl. 13-17 yfir veturinn.

Með því að kappinn var erlendis um áramótin síðustu efnir hann því nú til síðbúins afmæliskákmóts og veislufagnaðar sjálfum sér og öðrum til yndisauka í húsakynnum FEB, Ásgarði við Stangarhyl, þriðjudaginn 29. janúar nk., kl. 13 -17

Allir velkomnir óháð aldri og skákgetu – en Maggi er sterkur. 

UM MAGGA PÉ 

Magnús Vignir Pétursson er sem kunnugt er víðfrægur og virtur milliríkjadómari í knattspyrnu og handbolta og hefur dæmt fjölda stór- og  landsleikja erlendis og fleiri leiki í efstu deild hér á landi en nokkur annar.  Hann varð fyrstur til að gefa gult spjald á Melavellinum 1951  (sem Helgi Daníelsson, markvörður fékk fyrri kjaftbrúk) og einnig fyrstur til að gefa mönnum rauða spjaldið hér á landi og senda menn af velli. (þegar hann rak Ellert Scram og Baldur Árnason ÍA af velli árið 1955 fyrir áflog).

Magnús er Þróttari og var einn af stofnendum Skákdeildar Þróttar á sínum tíma og starfaði þá náið með Halldóri Sigurðssyni fisksala stofnanda félagsins, sem landfrægur varð eftir dauða sinn í Djöflaeyjunni.  Á síðari árum hefur Magnús ekki aðeins verið drjúgur við að tefla sjálfum sér til ánægju og yndisauka einkum í hópi eldri borgara með góðum árangri – heldur hefur hann og hans ágæta fyrirtæki, áður Hoffell nú Jói Útherji, verið iðið við að styðja skákhreyfinguna og einstaka skákklúbba myndarlega til mótahalds um langt árabil. Má þar  m.a. nú í síðari tíð  skákklúbba eldri borgara, Æsir,  Riddarann og Korpúlfa, sem og KR, en Magnús hefur gefið bikara og aðra verðlaunagripi til móta á þeirra vegum.

Magnús hefur unnið sér margt til frægðar á skáksviðinu m.a. að gera jafntefli við Mikhail Tal, fyrrv. heimsmeistara í skák árið 1957 í Moskvu, sem líkti skákstil Magnúsar við Paul Morphy, eins mesta skáksnillings sem uppi hefur verið.  Þess má og minnast að  M. Pétursson tefldi víðfræga tapskák við Bent Larsen í klukkufjöltefli árið 1989, á loftinu hjá Gunna Gunn í Ísafold,  sem endaði með tvöföldu biskupsmáti.

Fyrir þremur árum var MPé sæmdur heiðursmerki SÍ fyrir lofsvert framlag hans til skákhreyfingarinnar á Íslandi um margra áratugaskeið.  Fór það  í safn 11 gullmerkja, sem honum hefur áður hlotnast frá íþrótta-hreyfingunni, einstökum samböndum og félögum innan hennar. Áður hafði hann verið heiðraður af Gallerý skák, KR og Riddaranum.   /ESE

- Auglýsing -