Afmælisbarnið ásamt Friðriki Ólafssyni. Fyrir aftan glittir í sigurvegarann. Mynd: ESE

Það var þröng á þingi á afmælisboðsmóti Magga Pé í vikunni sem leið. Margir öflugir skákmenn af gamla skólanum mættir til tafls fyrir utan afmælisbarnið sjálft sem lék við hvurn sinn fingur. Keppendur voru yfir 40 talsins og var þetta fjölmennasta mót sem farið hefur fram hjá FEB í Ásgarði, en ÆSIR stóðu að mótinu með myndarbrag.

Friðrik Ólafsson, stórmeistari m.m., heiðraði mótsgesti með komu sinni og hlaut veglegt lófaklapp að launum. Gunnar Björnsson, forseti Skáksambandsins, var viðstaddur setningu mótsins til heiðurs læriföður sínum í skák. Drukkið var veislukaffi og gamansögur sagðar.

Eins og vænta mátti varð keppnin um efsta sætið æði i hörð og tvísýn eins og vænta mátti, sem og reyndar á öllum borðum, því enginn veit sína skákina fyrir enn öll er. Lengi vel mátti vart á milli sjá hver færi með sigur af hólmi þegar upp væri staðið.

Afmælisbarnið ásamt sigurvegaranum. Mynd: ESE

Úrslitin komu þó sumum á óvart en öðrum ekki – því það var enginn annar en elsti keppandinn fyrir utan afmælisbarnið sjálft, aðeins fimm mánuðum yngri, hinn aldni fyrrv. Íslandsmeistari í skák og knattspyrnu Gunnar Kr. Gunnarsson sem sigraði með glæsibrag, hlaut 7.5 vinningi af 9 mögulegum og blés vart úr nös.

Hinir harðsnúnu Ólafur Kristjánsson og Sæbjörn Larsen urðu í 2.-3. sæti með 7v. Björgvin Víglundsson og Guðfinnur Kjartansson komu svo næstir með 6.5v. Páll G. Jónsson, annar jafnaldri Magga, var með 6 v. ásamt nokkrum öðrum, svo lengi lifir í gömlum glæðum. Gestgjafinn sjálfur skipaði svo heiðursætið sem hann var bara nokkuð sáttur við enda „sælla að gefa en þiggja“ eins og hann sagði þegar hann leysti menn út með veglegum verðlaunum og gjöfum með bros á vör.

Nánari úrslit má sjá á mótstöflunni hér að neðan.

Myndskreyting: ESE

ESESE

- Auglýsing -