Mynd: ESE

Í samvinnu við Æsi hefur Toyota á Íslandi efnt til árlegs skákmóts fyrir eldri borgara undanfarin 12 ár í höfuðstöðvum sínum í Kauptúni, Garðabæ.

Föstudaginn 1. febrúar sl. var fjölmenni saman komið í ráðstefnusal bílarisans í Garðabæ og nærri 40 aldnir kappar settust að tafli. Blásið var í herlúðra. Ekkert var gefið eftir og menn skemmtu sér við að fella mann og annan. Ekki á sama hátt og gerðist á Valhallartúninu forðum en keppnisharkan var í lagi þó drengskapur réði för.

Júlíus í mótslok. Mynd: ESE

Það var Júlíus Friðjónsson sem vann mótið að þessu sinni  en Gylfi Þórhallsson, tvöfaldur fyrrv. sigurvegari, var lægri í stigum og taldist því verma annað sætið þó vinningarnir væru jafnir 9 af 11 mögulegum. Nokkru á eftir þeim í 3.-4. sæti komu svo Guðfinnur R. Kjartansson og Haraldur Haraldsson með 7,5 vinning. Í 5.-9.  sæti með 7 vinninga slétta höfnuðu þeir Jón þorvaldsson, Björgvin Víglundsson, Bragi Halldórsson, Páll G. Jónsson og Stefán Þormar. Aðrir með minna og þaðan af enn minna.

Mannvalið í fyrstu 9 sætum varpar ljósi á styrkleika hópsins sem mætti til leiks hjá Ásum og Toyota umboðinu, aðrir riðu ekki eins feitum hestum frá hildi að þessu sinni en flestir undu þó glaðir við sitt í lok baráttunnar og ætla sér betri útkomu að ári.

Auk farandbikars og verðlaunagripa fengu 10 efstu menn peningaverðlaun og þeir tveir neðstu líka sem sárabótagreiðslu.

Texti: Jónas Ástráðtsson / ese

Nánari úrslit má sjá á meðf. mótstöflu ef vel er að gáð með því að tvíklikka á hana.

Myndskreyting: ESE
- Auglýsing -