Norðurlandameistarar Jón Kristinn Þorgeirsson (t.v.) og Stephan Briem með verðlaunagripi sína. — Morgunblaðið/Gunnar Björnsson

Norðurlandamótinu í skólaskák lauk í gær í Hótel Borgarnesi þar sem teflt var við frábærar aðstæður. Ísland fékk tvo Norðurlandameistara rétt eins og fyrra og reyndar í sömu flokkum en aðrir einstaklingar sem hömpuðu sigri.

Jón Kristinn Þorgeirsson (Jokko) vann sannfærandi sigur í a-flokki (u20). Fyrsti Norðurlandameistaratitill Jokkos og jafnframt sá síðasti en hann er á sínum síðasta aldursári. Stephan Briem vann sigur í b-flokki (u17) eftir afar spennandi lokaumferð. Vignir Vatnar Stefánsson varð jafn honum í efsta sæti en gullið varð Stephans og silfrið Vignis eftir stigaútreikning.

Í fyrra urðu Oliver Aron Jóhannesson og Hilmir Freyr Heimisson Norðurlandameistarar í a- og b-flokki.

A-flokkur

Jón Kristinn Þorgeirsson átti ekki í neinum vandræðum að ná jafntefli gegn Finnanum stigaháa Toivo Keinanen í lokaumferðinni. Hann varð þar með einn efstur með 5 vinninga, hálfum vinningi á undan Dananum Bjarke Hautop Kristensen. Jokko hækkar um 19 stig fyrir frammistöðu sína. Hilmir Freyr Heimsson vann glæsilegan sigur í mikilli fórnarskák í lokaumferðinni og varð fjórði með 3½ vinning.

Lokastaðan á Chess-Results.

B-flokkur

Verðlaunahafar í b-flokki: Mynd: BÍvarK

Spennan var magnþrungin í b-flokki fyrir lokaumferðina. Þrír keppendur efstir og jafnir. Stephan Briem og Vignir Vatnar Stefánsson og Svíinn Ludvig Carlsson. Stephan tefldi við Carlsson og Vignir við Færeyinginn Leif Reinert Fjallhem. Vignir vann og leiddu útreikningar sérfræðinga það í ljós að Carlsson og Stephan myndu báðir vinna Vigni eftir stigaútreikning. Hann varð því að vonast eftir jafntefli. Lengi leit út fyrir að Svíinn myndi vinna skákina og um leið mótið. Stephan tefldi skákina af mikilli útsjónarmiði og var skyndilega kominn með mikla jafnteflismöguleika sem hefði þýtt sigur Vignis á mótinu. Stephan sneri hins vegar á Svíann í hróksendataflinu og því Norðurlandameistaratitillinn hans!

Félagarnir úr Hörðuvallaskóla hlutu báðir 4½ vinning. Glæilegur árangur hjá Stephani. Hann var aðeins sjötti í stigaröð keppenda. Hann tefldi við alla þá sem voru stigahærri. Hann hækkar um 111 skákstig fyrir frammistöðu sína!

Lokastaðan á Chess-Results

C-flokkur

Verðlaunahafar í c-flokki: Mynd: BÍvarK

Óskar Vikingur Davíðsson og Róbert Luu byrjuðu báðir vel á mótinu en misstu þráðinn þegar á leið. Uppskeran varð 0 vinningar á lokadeginum. Óskar lék slysalega af sér hrók í lokaskákinni. Óskar Víkingur hlaut 2½ en Róbert fékk 2 vinninga.

Lokastaðan á Chess-Results.

D-flokkur

Verðlaunahafar í d-flokki: Mynd: BÍvarK

Benedikt Briem og Gunnar Erik Guðmundsson unnu báðir sigra í lokaumferðinni. Benedikt hlaut 3 vinninga en Gunnar Erik 2½ vinning.

Lokastaðan á Chess-Results.

E-flokkur

Verðlaunahafar í e-flokki: Mynd: BÍvarK

Það var vitað fyrirfram að e-flokkurinn gæti verið erfiður hjá okkar fólki. Báðir strákarnir fengju góða eldskírn á sína fyrsta Norðurlandamóti. Tómas Möller hlaut 2½ vinning en Kristján Ingi Smárason 1½ vinning.

Lokastaðan á Chess-Results.

Norska siguraliðið ásamt bæjarstjórar Borgarbyggðar og forseta SÍ. Mynd: GB

Ísland hlaut 31½ vinning og varð í 2.-3. sæti í landskeppninni ásamt Finnum. Norðmenn unnu sannfærandi sigur með 35½ vinning.

Heildarárangur íslensku keppendanna.

Í mótslok afhendi Gunnlaugur A. Júlíusson, bæjarstjóri Borgarbyggðar, verðlaunin til keppenda.

Liðsstjórar og þjálfarar íslenska hópsins voru Helgi Ólafsson og Hjörvar Steinn Grétarsson.

Starfsmenn mótsins voru Gunnar Björnsson, mótsstjóri, Omar Salama og Róbert Lagerman skákstjórar og Björn Ívar Karlsson útsendingarstjóri.

Teflt var við frábærar aðstæður á Hótel Borgarnesi. Hótelið og starfsfólkið fær miklar þakkir fyrir frábæra þjónustu um helgina. Keppendur létu afar vel að öllum aðbúnaði. Borgarbyggð fær þakkir fyrir alla aðstoð en bærinn bauð öllum keppendum frítt í sund um alla helgina sem féll í afar góðan jarðveg.

- Auglýsing -