Jóhann og Hannes kampakátir í mótslok. Mynd: KÖE

Fjölmennt og sterkt atskákmót til minningar um Bergvin Oddsson – Bedda á Glófaxa fór fram í húsnæði Þekkingarseturs Vm. að Ægisgötu 2 sl. laugardag kl. 12.00-19.00. Keppendur voru alls 42 talsins , þar af fimm stórmeistrar og nokkrir alþjóðlegir skákmeistarar. Atskákmótið var haldið af Taflfélagi Vestmannaeyja í samstarfi við fjölskyldu Bergvins, en Beddi tefldi mikið á yngri árum og var í hópi öflugustu bakhjarla TV. Umhugsunartími 15 mín. á skákina og 5 sek. á hvern leik. Alls voru tefldar átta umferðir, en hver umferð tók um 45 mínútur.

María, ekkja Bedda, fyglist með syni sínum kljást við sigurvegarann. Mynd: KöE

Arnar Sigurmundsson form. TV og Lúðvík Bergvinsson settu mótið. María – Dúlla – Friðriksdóttir ekkja Bedda lék fyrsta leikinn í skák Lúðvíks við Jóhann Hjartarson stórmeistara.

Séð yfir keppnissalinn. Mynd: KÖE.

Keppendur á mótinu allt frá 10 ára upp í 77 ára , þar af þrjár konur. Beddamótið er meðal sterkustu atskákmóta sem fram hafa farið hérlendis. Úrslit réðust í síðustu umferðinni , Jóhann Hjartarson og Hannes Hlífar Stefánsson urðu jafnir í 1.-2. sæti með 6,5 vinninga í átta skákum. Jóhann úrskurðaður sigurvegari . Í 3-5 sæti urðu Helgi Ólafsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Þröstur Þórhallsson allir með 6 vinninga. Helgi var úrskurðaður í 3. sæti. Þeir sem skipuðu fimm efstu sætin eru allt stórmeistarar. Þeir Jóhann, Hannes Hlífar og Helgi skipuðu einnig efstu þrjú sætin á Skákþingi Íslands sem fram fór í Eyjum 1994 og ótrúlegt að sama niðurstaða skyldi nú verða í jafnsterku móti 25 árum síðar!

Verðlaunahafar á Beddamótinu ásamt móstahaldara.

Af 42 keppendum voru átta búsettir í Eyjum, en einnig nokkrir Eyjamenn búsettir uppi á landi sem hafa teflt með TV í Íslandsmótum skákfélaga.  Skákstjóri var Kristján Örn Elíasson, en hann var yfirskákdómari á Reykjavíkurmótinu sem fór fram í apríl sl. Arnar Sigurmundsson var honum til aðstoðar við framkvæmd mótsins. Fjölmargir aðilar komu að undirbúningi mótsins. Fjölskylda Bergvins gaf öll verðlaun sem voru mjög vegleg, auk þess styrktu fyrirtæki innannbæjar og utan mótshaldið og framhaldið. Arnar Sigurmundsson formaður TV segir að mótið hafi verið öllum til sóma- og ánægjulegt að minnast þessa mæta manns og félaga Bedda á Glófaxa með jafn afgerandi hætti.

Lokastaðan á Chess-Results.

- Auglýsing -