Mótaáætlun Taflfélags Reykjavíkur fyrir komandi starfsár liggur nú fyrir og má nálgast á heimasíðu félagsins. Dagskráin verður með svipuðu sniði og í fyrra en alls heldur félagið ríflega 60 skákmót og viðburði og munar þar mest um þriðjudagsmótin sem verða keyrð á fullu í allan vetur.

Níu kappskákmót verða haldin; Haustmótið, U-2000 mótið, Skákþing Reykjavíkur, Öðlingamótið og síðast en ekki síst fimm mót Bikarsyrpunnar sem rennur nú úr hlaði sjötta árið í röð. Alls gerir þetta 65 umferðir af kappskákum en jafnframt stendur félagið fyrir hraðskákmótum og atskákmótum af ýmsum toga, hvort heldur sem er fyrir börn og unglinga eða þá sem eldri eru.

Þá eru hin hefðbundnu skólamót á sínum stað, Jólamótið í lok nóvember og Reykjavíkurmótið í byrjun febrúar. Það er því af nægu að taka fyrir skákáhugamenn sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Næsta mót á dagskrá er Borgarskákmótið sem félagið heldur í samstarfi við Skákfélagið Hugin en nú þegar er lokið hinu árlega Stórmóti Árbæjarsafns og TR. Barna- og unglingastarf félagsins verður kynnt á allra næstu dögum en skákæfingar hefjast í byrjun september.

Af heimasíðu TR.

- Auglýsing -