Evrópumóti ungmenna lauk nú á laugardaginn síðastliðinn í Bratislava í Slóvakíu. Tefldar voru 9 umferðir í heilum 16 flokkum og keppendur alls yfir 1300. Ísland átti 14 keppendur á mótinu og verður hér farið aðeins yfir árangur okkar krakka.

Mótshaldið tókst heilt yfir mjög vel. Teflt var í glæsilegri expo-höll, Incheba. Salarkynni voru mjög rúmgóð, stór salur fyrir foreldra og þjálfara og stór matsalur. Oft var hart barist um stóla en samt meira og minna nóg pláss.

Förum aðeins yfir árangur í hverjum flokki fyrir sig.

U18

Tveir keppendur voru í elsta flokki mótsins og þar var Hilmir Freyr Heimisson stigahæstur með 2258. Hilmar á fullt erindi í þetta mót og ekki langt síðan hann var með 2390 elóstig. Með Hilmi í flokknum var Birkir Ísak Jóhannsson (1988).

Hilmir Freyr byrjaði mótið mjög illa og tapaði mjög klaufalega fyrstu tveimur skákunum þrátt fyrir að vera í raun að flengja andstæðinga sína hægri-vinstri. Eftir að 18. afmælisdagurinn rann upp mætti hinn rétti Hilmir til leiks og náði í nokkra auðvelda vinninga en náði ekki að brúa stigabilið sem tapaðist í fyrstu umferðunum.  Þrátt fyrir að tapa stigum tefldi Hilmir heilt yfir nokkuð vel og býst ég við dágóðum stigagróða á alþjóðlegu mótí á Finnlandi sem hefst fljótlega.

Hilmir þarf að þétta aðeins hjá sér byrjanirnar til að taka næsta stökk en ég tel að hann hafi styrkleika í að ná alþjóðlegum meistara mjög fljótlega.

Skákir Hilmis:

Birkir Ísak átti mjög gott mót og hækkaði mest á stigum af íslensku keppendunum en heil 80 stig komu í hús þar. Birkir tefldi vel á mótinu og hann er mögulega fremstur af íslensku keppendunum þegar kemur að byrjanakunnáttu. Birkir var sjaldan í vandræðum snemma tafls og hefði ef eitthvað er átt að ná fleiri vinningum á mótinu. Birkir er klárlega enn með styrkleika sem er ofar hans elóstigum og því mun stigakerfi Dr. Arpad Elo vafalítið sanna það á næstu mánuðum og hann hækkar vel yfir 2100 elóstigin.

Skákir Birkis:

U16

Í U16 áttum við þrjá keppendur. Þar fóru fremstir í flokki Vignir Vatnar Stefánsson (2314) og Stephan Briem (2223) en Vignir var líklegast okkar helsta von í að komast á pall á Evrópumótinu. Vignir er orðinn vel sjóaður á þessum mótum enda er þetta níunda Evrópumótið hans! Arnar Milutin Heiðasson (1705) var einnig meðal keppenda í þessum flokki. Ég held að allir svona hópar verði að hafa eitt stykki Arnar Milutin sem er mjög sterkur fyrir móralinn í hópnum!

Vignir hóf mótið mjög sterkt en það var eiginlega þrátt fyrir slaka taflmennsku. Fyrstu tvær skákirnar voru slakar en styrkleikamunurinn taldi engu að síður og Vignir hafði sigur í þeim báðum. Í þriðju umferð tefldi hann mjög góða skák og gerði traust jafntefli með svörtu í þeirri fjórðu. Tvær skákir töpuðust af næstu þremur sem tóku Vigni úr baráttu um að komast á pall. Vignir kláraði mótið svo á fínni skák gegn ísraelsku mótherja. Vignir frumsýndi þar “Vatt-variation” 5.Hb1 sem er leikur sem honum datt allt í einu í hug að leika.

Frumleg taflmennska og vissulega einhverjar hugmyndir í gangi en eitthvað segir mér að þessi varíantur verði ekki langlífur!

Vignir er nú jafnt og þétt að hækka á stigum eftir að hafa tekið stóra dýfu í kjölfarið á því að brjóta 2400-stiga múrinn. Styrkleikinn er núna kominn og þangað er förinni heitið aftur. Vignir þarf líkt og Heimir aðeins að þétta sínar byrjanir og er að gera það með því að bæta traustari byrjunum við sitt vopnabúr í stað þess að tefla alltaf Skandinavann og Hollendinginn þó að þær byrjanir hafi í raun gefi ágætlega á köflum.

Skákir Vignis:

Stephan Briem byrjaði líkt og Breiðabliks-bróðir sinn nokkuð vel og var með 3 vinninga eftir 4 umferðir. Tap í þriðju umferð hefði mátt koma í veg fyrir með kraftaverkabjörgun þegar Stephan átti magnaða vinningsleið. Seinni hluti mótsins var ekki nægjanlega góður hjá Stephan og hann náði ekki að vinna skák í seinni part móts og tapaði um 20 stigum í heildina.

Stephan hefur mikið til brunns að bera en þarf fyrst og fremst meiri keppnisæfingu og víðari byrjanaþekkingu. Sú þekking er þó á hraðri uppleið en ég veit þó að ýmsir sem fylgdust með mótinu vilja kasta þessum “Skandinava hjá strákunum” lengst út fyrir hafsauga! Það er vonandi að Stephan tefli sem mest á næstunni og festi sig í sessi yfir 2200 elóstigum.

Skákir Stephans:

Arnar Milutin (1705) var stigalægstur íslensku keppendanna í U16 og með þeim stigalægri í flokknum. Hann lét það þó ekki á sig fá og nældi sér í heil 36 elóstig með flottum sigri í fyrstu umferðinni. Því miður reyndist það einu sigurinn á mótinu en tækifærin voru vissulega til staðar. Hann tefldi spennandi skák í 2. umferð og þar hefðu hlutirnir hæglega getað dottið fyrir hann. Arnar hækkar um yfir 50 elóstig fyrir árangur sinn. Með stúderingum og aga ætti Arnar að geta sett markið á 2000 stiga múrinn.

Skákir Arnars:

 

U14

Tveir keppendur voru í U14, “Benediktarnir” þeir Briem og Þórisson.

Benedikt Briem getur nokkuð vel við unað með 50% árangur á mótinu en ég veit að hann stefndi hærra og hefði með smá heppni getað nælt sér í smá elóstigaforða á mótinu. Gengið framan af var brösótt en þá komu 3 vinningar í röð í hús. Þá kom tap gegn sterkum Dana og loks var tiltölulega stutt jafntefli í lokaumferðinn.

Benedikt er gríðarlega mikill keppnismaður en þarf aðeins meiri aga í stúderingar eins og flestir í hópnum og örlítið að bæta byrjanaþekkinguna sem er samt nokkuð góð. Ef Benedikt gerir það, sem ég veit að hann gerir þá er spurningin bara hversu hratt hann mun hækka á stigum.

Skákir Benedikts Briem:

 

Eldri Þórisson bróðirinn var hinn keppandinn í U14. Benedikt var með stigalægstu keppendum í þessum fjölmenna flokki en sýndi fína spretti inn á milli. Benedikt hækkar um 68 stig fyrir frammistöðuna.

Benedikt er orðinn nokkuð sleipur í að nota Chessbase og hefur bætt sig nokkuð í mörgum byrjunum en getur þétt þær eins og nánast allir í hópnum.  Benedikt lenti í nokkrum taktískum yfirsjónum í mótinu og þyrfti hann að bæta sig í að sjá taktík andstæðingana en ekki bara sína en hann átti flotta taktík í 3. umferð til að vinna mann snemma tafls. Sjálfum þótt mér gott að æfa þetta atriði með því að skoða æfingar á borði og snúa við “hvítur á leik og vinnur” stöðum og skoða þær frá sjónarhorni svarts.

Skákir Benedikts Þórissonar:

U12

Þrír keppendur voru í U12 flokknum.

Gunnar Erik Guðmundsson var svolítið fastur í “jó-jóinu” í þessu móti. Hann fékk svart á sterka en vann svo þá stigalægri. Endaspretturinn varð eilítið svekkjandi en lokaniðurstaðan voru 35 töpuð elóstig.

Gunnar á mikið inni og orðinn nokkuð sjóaður í mörgum byrjunum. Hann bætti einnig klárlega við sig þekkingu á mótinu og næsti Grunfeld skákmaður gæti lent í býsna miklu basli gegn honum!

Skákir Gunnars:

Árangur Adams í U12 var nokkurn veginn á pari við stig. Með smá heppni hefðu fleiri punktar getað komið í hús og eins var það óstuð að andstæðingurinn í 4. umferð var stigalaus. Adam var strax byrjaður að stúdera í flugvélinni á leiðinni heim og hann á vonandi inn gott styrkleikastökk sem kemur fljótlega.

Skákir Adams:

Árangur Tómasar svipaði mjög til árangurs Adams, nokkurn veginn á pari miðað við stig og styrkleikaröð. Tómas byrjaði mótið ekki vel en fékk meira sjálfstraust eftir sigur í 4. umferð og var svo líkt og Adam óheppinn að fá stigalausan andstæðing. Tómas finnst mér klárlega eiga inni mikið styrkleikastökk og voanndi að hann haldi dampi og verði duglegur að stúdera.

Skákir Tómasar:

U10

Byrjunin hjá Bjarti var erfið en hann vann sig inn í mótið um miðbik þess og náði að klára nokkurn veginn á pari stigalega. Bjartur stóð sig mjög vel í að laga einbeitinguna eftir gagnrýni á tímanotkun í fyrstu skákinni og hann notaði tímann mjög vel það sem eftir liði móts og fær stórt plús í kladdann fyrir það.

Skákir Bjarts:

U8

Josef tefldi í yngsta flokknum og endaði með 3 vinninga og tapaði stigum. Stigin er þó lítið að marka þar sem flestir andstæðingana voru stigalausir. Einbeiting og taktískar lausnir eru oft það sem klárar skákir í yngstu flokkunum og ef við tökum það út fyrir sviga var margt jákvætt í taflmennskunni hjá Josef. Vonandi nýtist þessi reynsla honum sem best.

Skákir Josefs:

Stelpur U12

Árangur Batelar var upp og niður miðað við stig. Batel tapaði yfir 50 stigum á mótinu en vinningafjöldinn var engu að síður í fínu lagi. Batel þarf aðeins að bæta byrjanaþekkinguna en hún fer oft sínar eigin leiðir. Það er hægt að komast upp með svoleiðis í yngstu flokkunum en þetta þarf að bæta til að fara ofar í styrkleika. Batel er samt mjög dugleg að æfa sig í taktík og er oft á tíðum úrræðagóð í því sem sumir kalla “street-smarts” á borðinu.

Skákir Batelar:

Stelpur U10

Guðrún Fanney tefldi eins og margir nokkurn veginn á styrkleika miðað við stig. Stig eru þó oft ekki góður mælikvarði í yngstu flokkunum þar sem ekki er mikill fjöldi skáka á bakvið stigin. Guðrún halaði inn 4 vinningum og má nokkuð vel við una. Briem fjölskyldan stefndi á 50% eða yfir í heildina og munaði aðeins hálfum vinningi þar á.

Það er töggur í Guðrúnu og hún tekur leiðsögn vel. Eins á hún tvo mjög sterka bræður sem geta hjálpað henni í byrjunum og öðru þannig að gaman verður að fylgjast með framför Guðrúnar á næstu árum.

Skákir Guðrúnar:

Smá yfirferð yfir keppnissalinn:

Alls græddi hópurinn rétt rúmlega 30 stig en það er kannski ekki besti mælikvarðinn á árangur þar sem ýmislegt er hægt að telja til bæði að keppendur eru almennt underrated og fleira. Heilt yfir var árangurinn viðundandi og reynslan góð.

Stórmeistarinn Helgi Ólafsson var yfirþjálfari íslenska liðsins. Helgi er ómetanlegur í svona ferðum, hafsjór af fróðleik og kúltúr og veit einhvern veginn að einhver ungverskur plebbi er að fara að tefla Grunfeld þó hann hafi aldrei á ferlinum gert það bara af því að hann er frá Ungverjalandi! Helgi er líka algjörlega með magnað minni og man ótrúlegustu hluti, bæði skáktengda og ekki skáktengda! Það er mikill skóli að fá undirbúning og yfirferð eftir skák með Helga.

Svo er það bara þannig að maður ætti eiginlega að borga með sér í svona ferðir til að fá alla frasana frá Helga beint í æð. Nýjasti frasinn er “hrossalækning” en það á við veika leiki sem rétt svo þjappa upp í einhverjar beyglur í stöðunni en gera það einungis tímabundið….passa hrossalækningarnar!

Undirritaður var fararstjóri/þjálfari með Helga og er þetta í annað skipti sem ég fer á Evrópumót ungmenna. Fréttaskrif voru einnig á mínum vegum og því meiri þungi sem fór á Helga í undirbúningi þó vissulega hefði lent mikið á mér og okkur báðum. Eftir svona mót er maður algjörlega uppfullur af hugmyndum og er mig farið að langa að tefla allskonar byrjanir og prófa hugmyndir sem fundust í undirbúningi!

Gunnar Björnsson fær miklar þakkir,en mikið af praktískum atriðum fyrir ferð og meðan á ferð stendur koma upp sem þarf að leysa. Gunnar var alltaf til taks með hjálp þó hann væri í fríi erlendis. Að lokum langar mig að þakka hópnum í heild sinni. Hópurinn var mjög skemmtilega samsettur og samheldinn. Foreldrarnir komu allir sterkir inn og studdu vel við hópinn og fararstjóra með stuðningi á ýmsan hátt. Heilt yfir er ég á því að Ísland og ungir íslenskir skákmenn eigi sem flestir að stefna á þetta mót sem er bæði mikill skóli og góð reynsla.

Ingvar Þór Jóhannesson

- Auglýsing -