Kampakátur Sigurbjörn en minna kátur Ingvar. Mynd: Ingi Þór Hafdísarson.

Margir gerðu sér ferð að skákkaffihúsinu Stofunni í gærkvöldi til að taka þátt í hraðskákmóti sem þar fór fram um áttaleytið. Metfjöldi keppenda var að þessu sinni eða 43 samtals. Sex titilhafar tóku þátt, þar af einn stórmeistari, nýjasti stórmeistari Íslendinga, Bragi Þorfinnsson.

Þetta var fimmta mótið á síðastliðnu ári (fyrsta mótið fór fram í ágúst 2018) sem Elvar Örn, Héðinn Briem, Arnar Ingi og félagar halda í samstarfi við Stofuna, Vinaskákfélagið og Hrókinn. Fyrsta mótið vann Daði Ómarsson, það næsta Ingvar Þór Jóhannesson og síðustu tvö skipti hefur Vignir Vatnar Stefánsson hreppt gullið. Ákveðið var að prufa að hafa þátttökugjöld í fyrsta sinn og láta þau öll sem og styrki renna beint í verðlaunafé.

Jólahraðskákmeistari Stofunnar 2018, Ingvar Þór, lét engan bilbug á sér finna nema gegn Braga Þorfinnssyni og endaði með sex vinninga úr sjö umferðum þar sem tímamörkin voru þrjár mínútur á mann fyrir hverja skák þar sem tveimur sekúndum var bætt við eftir hvern leik. Jafn honum með sama fjölda vinninga varð FIDE-meistarinn Sigurbjörn Björnsson sem einungis tapaði fyrir Ingvari í mótinu. Ákveðið var fyrir mótið að ef það yrði jafnt á toppnum að þá yrði teflt tveggja skáka einvígi með sömu tímamörkum (3+2) og bráðabani (armageddon skák) í kjölfarið ef enn yrði jafnt. Úr varð að Ingvar og Sigurbjörn tóku einvígi og börðust hart þar sem sitthvor vann sína skák með hvítu. Því þurfti að útkljá sigurvegarann með armageddon-skák þar sem hvítur hafði fimm mínútur og svartur fjórar (þar sem svartur heldur sigri á jafntefli).

Ingvar tók gullið heim á endanum og rúmar fjörutíuþúsund krónur í fyrstu verðlaun ásamt tæplega tíuþúsund króna gjafabréfi á Stofuna. Sigurbjörn hreppti silfrið og sigurvegari síðustu tveggja móta, Vignir Vatnar, bronsið eftir mjög gott mót framan af. Hann kemur án efa sterkur tilbaka í næsta móti.

Óvíst er hvenær næsta mót verður en þónokkur möguleiki er á að það verði í lok september næst. Ákveðið var að hafa langmest af verðlaunafénu fyrir fyrsta sætið í þetta skiptið en næst er planið að að hafa það aðeins jafnara fyrir efstu þrjú sætin. Verður auglýst á skak.is þegar nær dregur.

Mótshaldarar vilja koma á framfæri þökkum til allra sem lögðu á hjálparhönd og einnig til allra sem tóku þátt!

Lokastaðan á Chess-Results

Fyrir áhugasama má sjá bráðabanann hér á YouTube-rás Aðalsteins Thorarensen:

Fyrri úrslitaskák

Seinni úrslitaskák

Bráðabani (armageddon skák)

 

- Auglýsing -