Henný Nielssen leikur fyrsta leikinn. Kraftaverkakona, sem lagt hefur ótrúlega mikið af mörkum til Grænlands.

Fimm ára afmæli fatasöfnunar Hróksins í þágu grænlenskra barna og ungmenna var fagnað með viðeigandi hætti: Splunkunýrri sendingu var komið til þorpsins Ittoqqortoormiit í Scoresby-sundi, sem er afskekktasta byggð Grænlands, með skútunni Hildi frá Norðursiglingu á Húsavík.

Fatasöfnunin hófst einmitt að frumkvæði heimamanna í Ittoqqortoormiit, eins og Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins, rifjar upp. ,,Við gjörþekkjum til í þessum fallega og fjarlæga þorpi, enda höfum við skipulagt þar árlegar páskahátíðir um árabil og eigum þar mörgum vinum að fagna. Vinkona okkar þar í bæ, Ellen Napatoq, hafði samband við okkur um þetta leyti fyrir fimm árum og spurði hvort við gætum ef til vill útvegað dálítið af fötum fyrir börnin, þegar vetur fór í hönd.”

Hrókurinn hafði áður komið að ýmsum velferðarmálum, m.a. í samvinnu við Fatimusjóðinn, UNICEF, Rauða krossinn og fleiri aðila, og Hróksliðum fannst því sjálfsagt að leggja sitt af mörkum. ,,Ég hélt að þetta yrði svona tveggja vikna verkefni. Ég hafði samband við þann góða mann Guðmund Kristjánsson útgerðarmann í Brim, og falaðist eftir að fá lánað rými í vöruskemmu fyrirtækisins við Geirsgötu. Daginn eftir vorum við komnir með lyklavöld og höfum verið þar síðan. Ekki einasta hefur húsnæðið nýst frábærlega við fatasöfnun og flokkun, heldur höfum við haldið ótal viðburði, málþing, skákmót, jólagleðir og tekið á móti gestum frá Grænlandi. Pakkhús Hróksins hefur svo sannarlega iðað af lífi.”

Heiðbjört Ingvarsdóttir nestar Hróksmenn með ótal böngsum í splunkunýjum prjónafötum.

Margir lögðu sitt af mörkum til að koma veglegri sendingu til Ittoqqortoormitt nú á dögunum. Tugir einstaklinga og fyrirtækja lögðu til góðan vandað, meðal annars Lindex sem gaf mikið af nýjum og vönduðum útivistarfatnaði. Að vanda voru íslenskar hannyrðakonur drjúgar, en þær hafa á liðnum árum lagt Hróknum til ógrynni af góðum prjóna- og ullarfatnaði. Landflutninar sáu svo um að koma varningnum endurgjaldslaust til Húsavíkur og þar tóku Hörður Sigurbjarnason og hans menn hjá Norðursiglingu við. Hörður er jafnframt skiptstjóri á Hildi, sem jafnan er nokkrar vikur með ferðamenn í Scoresby-sundi, einum stærsta og mikilfenglegasta firði heims.

Hörður skipstjóri ber góssið á land í afskekktasta þorpi Grænlands.

Torbjörn Ydegaard, skólastjóri grunnskólans og hjálparhella Hróksins, mun hafa umsjón með úthlutun á fatnaðinum og hann bað fyrir sérstakar þakkir til allra sem hlut áttu að máli.

Skipverjar og heimamenn hjálpuðust að.

Gegnum árin hafa Hróksliðar sent mikið af fatnaði og öðrum gjöfum til Grænlands. ,,Fæstir átta sig á því að lífskjör hjá okkar góðu grönnum eru langtum lakari en flestir Íslendingar þekkja og vöruverð er þar hærra. Við leggjum áherslu á að koma fram af kærleika og virðingu. Við erum ekki að gefa ölmusu, heldur deila með okkar góðu grönnum því sem við erum aflögufær um. Allir eru boðnir og búnir að leggja þessum góða málstað lið: Fyrirtæki jafnt sem einstaklingar og félög.  Air Iceland Connect hefur gegnum tíðina flutt mikið magn af fatnaði og gjöfum fyrir okkur, sama gildir um Norlandair, Landflutninga og Norðursiglingu.”

Konurnar í Gerðubergi hafa nestað Hrókinn með gnótt af góðum fatnaði.

Hróksliðar fara auk þess klyfjaðir til Grænlands, þegar slegið er upp hátíðum. Það sem af er ári hefur Hrókurinn sent sex leiðangra til Grænlands og fleiri eru á teikniborðinu. ,,Það er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að auka og efla samskiptin á sem flestum sviðum. Skákin er stórkostlegt verkfæri, en starfsemi og humyndafræði Hróksins snýst um svo miklu, miklu meira.

- Auglýsing -