Um þessar mundir fagnar Skákdeild KR 20 ára afmæli sínu enda þótt 25 ár séu liðin frá því að „Skákklúbbur Vesturbæjar“ hóf starfsemi sína á Meistaravöllum. Það var hins vegar þann 6. nóvember 1999 sem hann varð formlega sjálfstæð deild innan þessa öfluga og eins stærsta íþróttafélags landsins.

Í sumar var afmælisársins minnst á Sumarmóti klúbbsins sem þar fór fram í blíðskaparveðri við Selvatn 13 árið í röð með miklu hátíðarsniði og veislu undir beru lofti þar sem þátttakendur voru um 50 talsins.

Nú er hins vegar ætlunin að bæta enn um betur og efna til tvöfaldrar afmælismótaþrennu, bæði á hinum hefðbundu mánudagsmótum sem og hinum vinsælu og fjölsóttu árdegismótum á laugardögum. Sú fyrri hefst í kvöld kl. 19.30 og verður svo framhaldið næstu tvö mánudagskvöld og hin síðari svo næstkomandi laugardag kl. 10.30 og út afmælismánuðinn.  Telfdar verða 9 hraðskákir með 7 mínútna umhugsunartíma. Skákmótin eru öllum opin eins og ávallt og þátttökugjaldi í hóf stillt.

Besti samanlagður árangur i öllum þrem mótunum í hvorum flokki telur til vinnings. Sigurlaunin verða ekki af lakara taginu því auk verðlaunapeninga verður útdeilt jólahlaðborðsvinningum fyrir tvo og hátíðarmálsverðum til efstu manna auk þess nokkrir slíkir verða einnig dregnir út til viðbótar fyrir heppna þátttakendur.

Skáksveit KR hefur verið í hópi öflugustu skákliða landsins í 1. deild sl. 4 ár en er nú í fyrsta sæti í 2. deild á Íslandsmóti skákfélaga þegar 4 umferðum af 7 er lokið.

Formaður Skákdeildar KR hefur verið frá upphafi Kristján Stefánsson, hrl. og með honum í stjórn eru Guðfinnur R. Kjartansson, varaformaður, Finnbogi Guðmundsson, gjaldkeri, Einar S. Einarsson, viðburða- og liðstjóri og Jón Steinn Elíasson, meðstj.

- Auglýsing -