Jón Eggert, formaður Hugins, lék fyrsta leikinn fyrir Hjörvar Stein gegn Halldóri Grétari. Mynd: PRP

Höfundar: Halldór Grétar Einarsson og Pálmi R. Pétursson.

MótX skákhátíðinni 2020 var ýtt úr vör með pompi og prakt, þriðjudagskvöldið 7. janúar síðastliðinn. Spáð hafði verið bálhvössu vetrarveðri á mótsdegi og því var svolítið undir hælinn lagt hvort umferðin færi fram, sérstaklega þar sem margir ungir keppendur, allt niður í börn að aldri, eru skráðir til þátttöku í b-flokki mótsins.

Jötunmóður Kára var eitthvað deigari en efni stóðu til og vindstigin eitthvað færri en veðurfræðingar höfðu spáð hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Auk þess er skákfólk hart af sér og vant því að takast á við mótlæti. Engu að síður voru mótshaldarar við öllu búnir nóg var af dýnum og veitingum í húsinu ef kolófært gerði og keppendur þyrftu að dveljast fram á nótt.

Því var ekkert að vanbúnaði þegar teflendur mættu dúðaðir í peysur og úlpur í ljósuloft Breiðabliksstúku – sumir nokkuð veðurbarðir og hrímhúðaðir. Inn úr veðrinu tíndust meistarar af öllum stærðum og gerðum, ungir jafnt sem aldnir, konur og karlar, meistarar jafnt sem lærisveinar, lærðir jafnt sem leikir.

Skákhátíðin í björtuloftum Breiðabliksstúku má telja orðna fasta stærð í mótalandslagi manntaflsins. Auk þess að vera stökkbretti fyrir ungt skákfólk höfðar það mjög til sterkra og reyndra keppnismanna og eins skákmanna sem hafa ekki teflt svo árum eða áratugum skiptir. Hvað veldur er erfitt að segja en væntanlega er það einhver blanda af snörpu mótshaldi, vingjarnlegu andrúmslofti, möguleika á hjásetu og svo þessi viðurkenning að mótshöldurum sé ekki heimilt að birta skákir teflenda nema með leyfi hvorratveggju. Hið síðastnefnda hefur einkennt mótið frá upphafi og er viðurkenning á því að skoða megi teflda skák sem hugverk sem lýtur nokkurs konar höfundarrétti teflenda. Hver svo sem ástæðan er, þá er ljóst að mótið er eitt eftirsóttasta skákmót ársins sem laðar marga af okkar allra sterkustu skákmönnum til leiks.

Jón Þorvaldsson, guðfaðir mótsins, og einn helsti hvatamaður þess, ásamt Halldóri Grétari Einarssyni, hélt snjalla ræðu í upphafi móts þar sem hann kom keppendum í gírinn – svona rétt á meðan fólki hlýnaði á eyrum og blóð tók aftur að streyma um kalda kroppa. Hæfilegri blöndu gamans og alvöru var fléttað fagmannlega saman. Með stríðnisbrosi og stríðsglampa í augunum rifjaði Jón upp hversu harðgert skákfólk væri. Það væri og sannað að styrkur skákfólks yxi í rafmögnuðu veðri og því gætum við átt von á meistarastykkjum meðan byldi í rúðunum.

Jón vék að því að íslenskir skákmenn töluðum um að drepa taflmenn á borðinu sem er svona svolítið í ætt við fornmenn, víkingana, en nokkuð á skjön við það sem tíðkast í öðrum tungumálum. Þar eru aðrar sagnir notaðar, önnur orð, t.d. “take” á ensku, “slå” á dönsku og “nehmen” á þýsku. Skák væri jú þegar öllu er á botninn hvolft, stríðsleikur, herkænskuleikur og það væri miklu betra að drepa taflmenn, með skákiðkan og hugarafli, en að beita raunverulegu afli og efna til stríðsátaka – en af slíku eru illu heilli allt of margir þjóðarleiðtogar uppteknir. Hernaðarátök eru ávísun á harmkvæli. Fleiri mættu setjast að tafli. Annars væri fróðlegt að sjá þá etja kappi, Pútin og Trump ef hvor um sig mætti tilnefna 3 aðstoðarmenn. Skákvélar bannaðar!

MótX skákhátíðin er samvinnuverkefni Skákfélagsins Hugins og Skákdeildar Breiðabliks. Aðal styrktaraðili mótsins er byggingarfélagið MótX ehf.”

En vindum okkur í fyrstu umferðina.

A-flokkur

Hér urðu úrslit með þeim hætti, að sá stigahærri hafði alls staðar sigur. Úrslit voru því eftir bókinni.

Á efsta borði mættust Hjörvar Steinn Grétarsson og Halldór Grétar Einarsson. Hjörvar Steinn hafði hvítt og náði fljótlega kjörstöðu sem hann sigldi örugglega í höfn eins og verðandi ofurstórmeistara sæmir.

18…exf5 19.Bh3!

Ef svartur lét sig dreyma um að sleppa út með 19.exf5 Re5 þá vaknaði hann hressilega við þennan leik.

19…Ke7 20.Bxf5 h5 21.Hd1! nákvæmnin í fyrirrúmi 21. – Hd8 annars veður Bc5+ mjög óþægilegur. Eftirleikurinn er samspil tveggja biskupa sem leggja svartan að velli.

22.f4 b6 23.Bf2 Rf6 24.Hg1 Bh6 25.e5 Rd5 26.c4 og svartur gafst upp.

Á öðru borði tefldu Guðmundur Kjartansson og Baldur Kristinsson.

Upp kom staða þar sem eingöngu þungu mennirnir voru eftir og langar peðakeðjur. Baráttan var á b-línunni og var Gummi með yfirhöndina og bjó sig undir að þrefalda þar sem hefði þýtt unna stöðu. En Baldur er öflugur og hugmyndaríkur og eftir smá ónákvæmni hjá svörtum þá skellti hann í b4 uppbrot sem færði honum mótspil og hefði getað fært honum meira.

27. b4! bxc4 28.bxc5 Hxb2 29.Hxb2 Hxb2 30.Dxb2

Hérna hefði stungan 30.c6! verið mjög óþægileg fyrir svartan. Hann getur að vísu bjargað sé með 30. – Dg4 en ekki meira en það.

30…dxc5 og með peði yfir og örlítið betri stöðu náði Gummi smám saman að landa sigri.

Þröstur tefldi flotta sóknarskák gegn Magnúsi Pálma og einnig voru flott tilþrif hjá Gauta Páli gegn Páli Andrasyni. Við bíðum eftir að þau snilldarverk skili sér í skákdálka dagblaðanna !

Benedikt Jónasson og Birkir Ísak Jóhannsson veittu þeim Vigni Vatnari og Andra Áss mikla keppni, en þeir stigahærri höfðu betur á endanum í báðum tilvikum.

Frekari úrslit má sjá á Chess-Results.

B-flokkur

Guðrún Fanney og Jóhanna Björg að tafli. Mynd: PRP

Í B-flokki settist skemmtileg blanda eldri og yngri keppenda að tafli. Þar tefla fjórar konur úr landsliðshópi Íslands; Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Lisset Mendez Acevedo, Hrund Hauksdóttir og Sigríður Björg Helgadóttir.  Í þeim spegla sig efnilegar framtíðar landsliðskonur þær Batel Goitom Haile, Guðrún Fanney Briem, Iðunn Helgadóttir og Þórhildur Helgadóttir sem einnig eru meðal þátttakenda. Landsliðskonurnar fjórar fóru utan aðfararnótt fimmtudags til keppni á opna skákmótinu í Prag ásamt liðstjóranum Helga Ólafssyni stórmeistara. Yfir þeim, úr höfuðstað Norðurlands, vakir svo Áskell Örn Kárason nýráðinn landsliðsþjálfari kvenna. Konunum sendum við baráttukveðjur til Tékklands.

Mörg önnur spennandi nöfn má finna meðal keppenda, m.a. bræðurna öflugu Aron Þór og Alexander Oliver Mai. Þar eru einnig Pétur Pálmi Harðarson sem flýgur hratt upp stigalistana og hinn öflugi Guðni Stefán Pétursson ásamt fleiri áskorendum að tveimur efstu sætunum sem gefa rétt til keppni í A-flokki á næsta ári.

Úrslit fyrstu umferðar í b-flokki voru eftir bókinni.

Yfirlit 1. umferðar

Aðalskákdómari mótsins er Halldór Grétar Einarsson. Skákdómari 1. umferðar var Pálmi Ragnar Pétursson.

Úrskurðarnefnd mótsins skipa: Benedikt Jónasson, Magnús Pálmi Örnólfsson og Baldur Kristinsson.

Teflt verður á þriðjudögum. Taflmennska hefst klukkan 19:30. Gestir eru velkomnir. Heitt á könnunni og bruðerí af allra bestu gerð!

Önnur umferð fer fram þriðjudaginn næstkomandi.

Heimasíða Hugins.

- Auglýsing -