Hannes Hlífar og börnin. Keppendur í áskorendaflokki mótsins. Mynd: Heimasíða mótsins.

Hinn kornungi aldursforseti, Hannes Hlífar Stefánsson (2529), byrjaði vel í áskorendaflokki skákhátíðinnar, í Prag sem hófst í gær. Í fyrstu umferð vann hann laglegan sigur á tékkneska stórmeistaranum Tadeas Kriebel (2524). Hannes var eini sigurvegari gærdagsins í áskorendaflokknum

Rétt er að benda á pistil á Chess.com þar sem skák Hannesar er skýrð.

Í áskorendaflokknum tefla tíu keppendur og þar af átta stórmeistarar. Hannes er áttundi í stigaröð keppenda en meðalstigin eru 2586 skákstig. Þess má geta að Hannes er elstur keppenda á skákhátíðinni.

Önnur umferð fer fram kl. 14 í dag. Þá teflir Hannes við yngsta stórmeistara Rússlands í dag, Andrey Esipenko (2654), sem sló í gegn á Gíbraltar-mótinu fyrir skemmstu og verður meðal keppenda á Reykjavíkurskákmótinu.

Bent er á tvær greinar um mótið á Chess.com. Sú fyrri birist fyrir mót sú síðari eftir fyrstu umferð. Í fyrri greininni er farið rangt með staðreyndir. Þar er því haldið fram að Hannes sé tólffaldur Íslandsmeistari. Hann er þrettánfaldur!

- Auglýsing -