SSON

Firmakeppni skákfélags Selfoss og nágrennis (SSON) verður haldin á sunnudaginn 7. júní á Hótel Selfossi og hefst klukkan 13:00. Tefldar verða 9 umferðir með tímamörkunum 4 mínutur á mann að viðbættum tveggja sekunda viðbótartíma fyrir hvern leik. Keppnin er hluti af fjáröflun skákfélagsins. Félagið er í toppbaráttunni á Íslandsmóti skákfélaga og er Norðurlandameistari skákfélaga í netskák (67 sveitir tóku þátt frá öllum Norðurlöndunum). Félagið hefur haldið alþjóðlegt skákmót í vetur, Suðurlandsmót, Íslandsmeistaramótið í Fischer-slembiskák, skákdómaranámskeið (Í samvinnu við félag skákdómara), skákkennaranámskeið (í samvinnu við Skáksamband Íslands), barnaskákmót o.fl. Á næstu árum er ætlunin að efla enn frekar barna og unglingastarf félagsins. Firmakeppni SSON verður fyrsta mót félagsins eftir að samkomubanni vegna COVID var aflétt.

Í firmakeppninni mun hver skákmaður tefla fyrir eitt fyrirtæki og dregið verðum um hverjir tefla fyrir hvaða fyrirtæki. Á meðal keppenda verða bæði stigalausir skákmenn og titilhafar (stórmeistarar og alþjóðlegir meistarar). Skráða keppendur má sjá á síðunni http://chess-results.com/tnr528184.aspx?lan=1

Boðið er um á kaffi og meðlæti fyrir gesti og skákmenn. Kaffihlé verður eftir 5 umferðir. Þeir skákmenn sem vilja tefla í firmakeppninni geta skráð sig með því að senda póst á skákdómarann Róbert Lagerman (chesslion@hotmail.com) eða á Oddgeir Ottesen (oddgeiragust@gmail.com).

Af heimasíðu SSON.

- Auglýsing -