Íslandsmeistarar í eldri flokki F.v.: Birgir Logi, Baltasar Máni, Stefán Orri, Óskar Víkingur og Björn Ívar Karlsson liðsstjóri. — Morgunblaðið/SÍ

Skáklífið á Íslandi braust úr greipum COVID-19 faraldursins þegar Íslandsmótið í skólaskák fór fram í Rimaskóla um síðustu helgi. Teflt var í yngri og eldri flokki grunnskólanemenda. Í yngri flokki, sem skipaður var nemendum 1.-7. bekkjar, sigraði Vatnsendaskóli í Kópavogi eftir aukakeppni við Landakotsskóla, en báðar sveitirnar hlutu 24 vinninga af 32 mögulegum. Sveit Háteigsskóla kom rétt á eftir með 22½ vinning. Í sigursveit Vatnsendaskóla – sjá mynd – tefldu Arnar Logi Kjartansson, Guðmundur Orri Sveinbjörnsson, Mikael Bjarki Heiðarsson, Jóhann Helgi Hreinsson og Tómas Möller.

Sigurlið Vatnsendaskóla með liðsstjóranum Kristófer Gautasyni.

Í eldri aldursflokknum, 8.-10. bekk, sigraði sveit Ölduselsskóla með nokkrum yfirburðum, hlaut 23½ vinning af 28 mögulegum. Hörðuvallaskóli varð í 2. sæti með 18½ vinning og Háteigsskóli, sem var með sömu sveit í báðum keppnunum, varð í 3. sæti með 17½ vinning. Í sveit Ölduselsskóla tefldu bræðurnir Óskar Víkingur og Stefán Orri Davíðssynir, Baltasar Máni Wedholm Gunnarsson og Birgir Logi Steinþórsson. Mótahald þetta heppnaðist með miklum ágætum.

Mótasyrpa Magnúsar Carlsen

Þó að opnað hafi verið fyrir hefðbundin skákmót hér á landi er ástandið annars staðar í heiminum því miður með allt öðrum hætti og óvissa ríkir um það t.d. hvenær áskorendamótið verður til lykta leitt, en því var slitið í miðjum klíðum í mars síðastliðnum.

Sú mótasyrpa sem Magnús Carlsen og hans menn standa fyrir er örlítil sárabót. Heimsmeistarinn rétt marði það að komast í átta manna hópinn en svo komst hann almennilega í gang. Í átta manna úrslitunum náði hann fram langþráðum hefndum fyrir niðurlæginguna í Fischer-random einvíginu við Wesley So í fyrra því að hann vann 5:1 og í fyrri hluta einvígisins við Nakamura á fimmtudaginn vann hann allar þrjár skákirnar og virðist öruggur með að komast í úrslitaeinvígið við Kínverjann Liren Ding eða Rússann Daniil Dubov.

Í sjöttu skákinni réð hann betur við flækjur tafls:

Wesley So – Magnús Carlsen

Katalónsk byrjun

1. Rf3 d5 2. d4 Rf6 3. c4 e6 4. g3 dxc4 5. Bg2 Bb4+ 6. Bd2 a5 7. O-O O-O 8. Ra3 Bxa3 9. bxa3 b5

Sú aðferð að reyna að halda í c4-peðið er að mörgum talin eina leið svarts til að tefla til vinnings gegn katalónsku byrjuninni.

10. Db1 c6 11. e4 h6 12. g4!?

Með hugmyndinni 12. … Rxg4 13. e5 en svartur á betri reit fyrir þennan riddara.

12. … Rh7 13. h4 e5!

Sókn á væng skal svarað með gagnárás á miðborði er gömul kenning.

14. Rxe5 Dxd4 15. Bf4 He8 16. Dc1 Dc5 17. Hd1 Ra6 18. Rxc6!

Óvæntur leikur eftir mislukkaða byrjun. Nú hefjast miklar flækjur.

18. … Dxc6 19. e5 Dc5 20. Bxa8 Bxg4 21. Be3 Dxe5 22. Hd4 Rf6 23. Bc6 He6 24. Bg2 Rc5 25. Dc3 Kh7 26. Dxa5 Rd3 27. Hb1!

Með mikilli útsjónarsemi í erfiðri stöðu er hvítur enn með í leiknum.

27. … Df5 28. Hxb5 Dg6 29. Da8 Re5 30. Hd8!

Skyndilega hótar hvítur máti á h8. En svartur hefur undirbúið vörn sem felur sér lævísa gildru.

30. … Re8

31. Hxe8??

Þetta mátti hann aldrei gera en tíminn var naumur.Eftir 31. Kh1 meta „vélarnar“ stöðu hvíts mun betri!

31. … Hxe8 32. Dxe8 Rf3+! 33. Kh1 Dd3

Hvítur er varnarlaus gagnvart hótuninni 35. .. Dd1+.

34. Bd2 Dxd2

– og So gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 30. maí 2020. 

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -