Lundarnir frá Reykjavík, Reykjavik Puffins, mættu norsku jarðálfunum, Norway Gnomes, í Nordic Chess League mánudaginn 6. júlí.

Teflt er á fjórum borðum, allir við alla, samtals 16 skákir. Tímamörkin eru 10+5.
Liðsmenn Lundanna voru Jóhann Hjartarson, Bragi Þorfinnsson, Helgi Áss Grétarsson og Björn Þorfinnsson. Fyrir Jarðálfana tefldu Hammer, Agdestein, Hauge og Getz.

Norðmenn tóku 3-1 forystu eftir 1. umferð. 2-2 jafntefli varð í annarri og einnig í þriðju umferð.

Jóhann Hjartarson dró vagninn fyrir Lundana og var með 3 vinninga eftir 3 umferðir. Lýsandi viðureignarinnar á Twitch.tv, IM Drazen Dragezevic, hélt ekki vatni yfir taflmennsku Jóhanns og lék ýmis orð falla; “Hjartarson is a positional genius!” og “Hjartarson is a brilliant endgame player!”.

Staðan var 7-5 fyrir Jarðálfana fyrir lokaumferðina. Hún leit framan af vel út fyrir Lundana. Helgi vann Hauge af öryggi og Björn og Jóhann voru báðir með góðar stöður á meðan Bragi var með erfiða stöðu gegn Agdestein. Því miður lenti Jóhann í svokölluðu mouse-slip og tapaði unninni stöðu gegn Hammer. Þá þurftu bæði Bragi og Björn að vinna sínar skákir sem gekk því miður ekki eftir. Lokatölur: Norðmenn 9,5 – 6,5 Ísland.

Jóhann fékk 3/4, Helgi 2/4, Bragi 1/4 og Björn 0,5/4.

Í næstu umferð mæta Lundarnir Dönum. Stefnt er að því að sú viðureign fari fram á morgun, þriðjudag.

- Auglýsing -