Myndskreyting: ESE

„Þá er komið af því að hefja skákstarfið að nýju“ segir Hlynur S. Þórðarson, forystumaður Skákhóps Korpúlfa, í nýlegri orðsendingu á feisbúkksíðunni Korpuskák. Stjórn Korpúlfa, félags eldri borgara í Grafarvogi, samþykkti fyrir helgina að í lagi væri að hefja skákmótahald að nýju eftir meira en hálfs árs hlé vegna Covid-ástandsins á grundvelli nýrra sóttvarnareglna SÍ. https://reykjavik.is/stadir/borgir-felagsstarf

Undanfarin fjögur ár hafa verið haldin reglubundin skákmót að Borgum, félagsmiðstöð Reykjavíkurborgar við Spöngina, á fimmtudögum, sem margir eldri skákmenn hafa sótt sér ánægju og yndisauka milli þess að geta teflt í Riddaranum og/eða Ásum daganna á undan, allt eftir því sem best hefur hentað þeim hverju sinni.

Myndskreyting: ESE

Í ljósi þess að starfsemi Riddarans er í tímabundnu uppnámi um þessar mundir eftir að hafa misst aðstöðu sína í Safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, þar sem hann hefur haldið uppi mótum allt árið um kring i 22 ár, hvetur hann liðsmenn sína til að mæta myndarlega til tafls hjá Korpúlfum að Borgum. Reyndar hafa þeir margir hverjir verið þar fastagestir áður svo það er þeim mikið fagnaðarefni að geta byrjað að tefla aftur enda kappsamir mjög og baráttuglaðir.

Æsir-skákklúbbur FEB í Stangarhyl, hefur gefið út stuttorða tilkynningu nýlega á þessa leið: Hikum enn vegna Covid og frestum því að byrja skákdaga í Ásgarði um sinn“.

Fyrsta skákmót vetrarins fyrir eldri borgara að Borgum verður á fimmtudaginn kemur, 17. september, kl. 12.30 og alla fimmtudaga í vetur á sama tíma nema eitthvað sérstakt komi til. Tefldar verða 9 -10 umferðir með 10 mín. umhugsunartíma á skákina. Þátttakendur taki með sér nesti og svaladrykki.

Heilir hildar til – heilir hildi frá /ESE

- Auglýsing -