SKÁKSÖGUFÉLAGIÐ þakkar af alhug öllum þeim mörgu sem skráðu sig fyrir forkaupum á bókinni og á heillaóskaskrá hennar. Jafnframt er það því og HINU ÍSLENSKA BÓKMENNTAFÉLAGI, útgefanda þessa viðamikla ritverks, sérstök ánægja að geta nú greint frá því að bókin er komin út og í almenna sölu í bókabúðum.

Í bókinni er rakin saga fyrsta stórmeistara Íslendinga með sérstakri áherslu á glæsileg skákafrek Friðriks og litríkan æviferill. Í henni er lýst harðskeyttri baráttu hans á skákborðinu við allra fremstu skákmeistara heims. Bestu skákir hans birtar með skýringum ásamt umfjöllun um árangur hans á skákmótum víðsvegar um heim.

Frágangur ritsins tafðist nokkuð af ýmsum ástæðum enda mjög til þess vandað á allan hátt. Með bókinni fylgir QR-snarkóði, sem gerir lesendum kleift að skoða skákirnar á snjalltækjum.

Bókin er sannkallað stórvirki frá hendi þeirra Friðriks og Helga Ólafssonar, sem færði hana í letur og hafði jafnframt umsjón með ríkulegu myndvali og glæsilegu umbroti hennar.

Nú eftir helgina mun þeim sem pöntuðu bókina fyrirfram berast greiðslukrafa frá Bókmenntafélaginu í einkabanka fyrir áskriftarverði hennar. Jafnframt verður hún borin í hús til kaupenda á höfuðborgarsvæðinu og berast öðrum kaupendum í pósti svo fljótt sem verða má.

Bókin er mikil hvalreki fyrir alla unnendur skáklistarinnar og aðra fróðleiksfúsa lesendur. Hún kemur út á 85 ára afmælisári meistarans og er hin veglegasta jólagjöf.

f. h. Skáksögufélagsins / ESE

- Auglýsing -